Húsráð

Húsráð

Hérna höfum við tekið saman nokkur góð húsráð

Gull hreinsað

Ef fallið er á gull getur verið gott að bera á það tannkrem og leyfa því að standa á dágóða stund.  Þá er hluturinn þveginn vel upp úr volgu vatni og verður þá skínandi fagur.  Gamall tannbursti er ekki verra áhald en hvað annað til að bera tannkremið á.

Silfur hreinsað

Flestum finnst hálfleiðinlegt að pússa silfur og í sumum silfurhlutum eru skorur sem fægilögurinn nær illa til.  Ein leið er að setja álpappír í botninn á potti, hálffylla hann af köldu vatni og dengja svo matarsóda út í.  Leggið silfrið, borðbúnað eða skartgripi í blönduna, látið suðuna koma upp og eftir smástund er silfrið orðið silfurlitað en álpappírinn þeim mun ljótari.

Kertavax hreinsað

Besta leiðin til að ná kertavaxi er að kroppa fyrst af það sem þannig næst, leggja svo dagblað yfir og strauja vel með heitu straujárni.  Ef efnið er of viðkvæmt til að skynsamlegt sé að kroppa vaxið af  má mýkja vaxið með hárþurrku og ná því þannig.

Rauðvíns- eða kaffiblettir

Ef blettir koma í teppi eða dúka þá má ná þeim úr með því láta kartöflumjöl eða salt standa á blettnum á meðan hann er enn blautur, það ætti að draga úr litnum.  Passa að láta blettinn ekki þorna.

Kaffi-og teskánir í bollum

Best er að fylla bollann af sjóðandi vatni og setja teskeið af matarsóda út í.  Matarsódi nýtist líka til að ná leiðindablettum úr gólfdúk, setjið sódann bara beint á blettinn og bleytið aðeins upp í honum.


Reykingarlykt

Edik getur flýtt mjög fyrir því að eyða reykingalykt.  Best er að láta edikið einfaldlega standa í skál í herberginu sem lyktar illa og lyktin einfaldlega hverfur.

Lumar þú á húsráðum, endilega sendu okkur email