Fréttir

Íbúðaverð hækkar hratt úti á landi

Grein af hringbraut.is 12.04.2018

4.323 íbúðir voru í bygg­ingu hér á landi í lok síðasta árs, sem eru ríf­lega þúsund fleiri íbúðir en voru í bygg­ingu í lok árs 2016, að því er fram kemur í skýrslu Íbúðalánasjóðs um stöðuna á húsnæðismarkaði. Þá vekur athygli hvað íbúðaverð hefur hækkað mikið úti á landi.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þessar:

Íbúðaverð utan höfuðborgarsvæðisins hefur hækkað hraðar en íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu undanfarin misseri. Á Akureyri og í Reykjanesbæ, tveimur fjölmennustu sveitarfélögunum utan höfuðborgarsvæðisins, hefur ásett verð fasteigna hækkað hratt undanfarna mánuði.

Hlutfall íbúðaviðskipta á höfuðborgarsvæðinu sem eru yfir og undir ásettu verði hefur náð meira jafnvægi. Í febrúar voru 9% viðskipta yfir ásettu verði og 79% undir ásettu verði, sem er í takt við meðaltal tímabilsins síðan 2012.

Meðalsölutími fasteigna á höfuðborgarsvæðinu lengdist í upphafi ársins og var svipaður á fyrstu tveimur mánuðum ársins og hann var að meðaltali á árunum 2015-2016.

Árið 2017 voru fyrstu íbúðakaup hlutfallslega flest á Vesturlandi og Suðurnesjum.

Leiguverð íbúðarhúsnæðis er nú að meðaltali um 2.000 krónur á landinu öllu, en 2.300 krónur á höfuðborgarsvæðinu.

Póstnúmerið 101 er það hverfi á höfuðborgarsvæðinu þar sem leiguverð er almennt hæst. Á landsbyggðinni er leiguverð hvað hæst á Akureyri.

Alls voru 4.323 íbúðir í byggingu hér á landi í lok síðasta árs. Í fyrsta sinn síðan 2011 var fjöldi íbúða í byggingu umfram langtímameðaltal.

1.768 íbúðir voru fullkláraðar í fyrra sem er um 17% fjölgun frá árinu 2016. Um 76% þessara íbúða eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu.

Byggingageirinn er sú atvinnugrein hér á landi þar sem mestur samdráttur hefur verið í fjölda starfandi frá árinu 2008. Fjöldi starfa í byggingariðnaði í lok síðasta árs var aðeins 68% af þeim fjölda sem var í byrjun árs 2008.

Smelltu hér til þess að lesa greinina í heild

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 
Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu
Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600