Fréttir

Tímabært að huga að hleðslu rafbíla í fjöleignarhúsum

Grein af Sóknarfæri 9.3.2018

„Á meðan hlutfall rafmagnsbíla er vel innan við 10% af heildarbílaflotanum er hleðsla þeirra í fjölbýlishúsum ekki stórt vandamál en eftir því sem rafbílunum fjölgar er hins vegar viðbúið að fjölga verði bæði hleðslustöðvum við fjöleignarhús og fráteknum stæðum fyrir þá,“ segir framkvæmdastjóri Eignaumsjónar, sem er leiðandi fyrirtæki á Íslandi í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög fasteigna, í samtali við Sóknarfæri.

Hefjið strax upplýsingaöflun

„Til þessa hafa eigendur rafbíla í fjölbýlishúsum yfirleitt leyst hleðslumálin í samráði við hússtjórnir, s.s. með sérkostnaðarmæli eða greiðslu fyrir áætlaða rafmagnsnotkun sameignar,“ segir Daníel en með stóraukinni fjölgun rafbíla verði að koma betra skikki á þessi mál. Hann ráðleggur stjórnum húsfélaga að hefjast strax handa við upplýsingaöflun, til að reyna að sjá fyrir þróun þessara mála og auðvelda þannig alla ákvarðanatöku.

„Fyrstu skrefin geta t.d. verið að kanna hversu margir íbúar ætla að fá sér rafbíl og hvort flutningsgeta heimtaugar hússins sé nægileg til að anna þeim rafbílafjölda sem ætla má að verði í húsinu,“ segir Daníel. Í fjöleignarhúsi með bílastæðum í óskiptri sameign þurfa eigendur að gera upp við sig hvort þeir vilji taka frá ákveðin bílastæði og koma upp hleðslustöð við þau stæði á vegum húsfélagsins.

Aukinn meirihluti húsfélagsfundar 

Ef bílastæði við hús eða í bílageymslu eru svokölluð sérafnotastæði segir Daníel að telja verði líklegt að einhverjir eigenda vilji setja þar upp eigin hleðslustöð eða tengil fyrir rafbíl. Á meðan rafbílar séu fáir geti dugað að koma upp góðum tengli við bílastæðið en þegar bílum fjölgi þurfi að fara að taka tillit til flutningsgetu heimtaugar hússins. „Húseigendur þurfa þá að ná samkomulagi um kaup á samræmdum hleðslustöðvum sem jafna og deila álagi. Samkvæmt lögum um fjöleignarhús þarf aukinn meirihluta atkvæða á félagsfundi til kaupa á slíkum búnaði og ráðstöfun bílastæða í óskiptri eign allra eigenda. Jafnframt þarf að þinglýsa þeirri ákvörðun húsfundar, eða nýrri eignaskiptayfirlýsingu, til að lögmæti samþykkis fyrir slíku sé tryggt,“ segir framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.

 Að ýmsu að hyggja

Eigendur fjöleignarhúsa ættu því að fara að huga að því hvernig ráð- stafa skuli sameiginlegum stæðum til hleðslu rafmagnsbíla, standa að rafmagnslögnum og tengingum ásamt kostnaðarskiptingu og gjaldtöku ef rafmagnið fyrir rafbílana er tekið af sameign viðkomandi fjöleignarhúss. „Þarna er að ýmsu að hyggja og skynsamlegt að láta fagaðila eins og okkur aðstoða við að útfæra heildarfyrirkomulag þeirra mála, enda mikilvægt að þar til bærir fagaðilar komi að þeirri vinnu til að tryggja sátt um verkefnið og að fylgt sé kröfum byggingaryfirvalda um útfærslu teikninga og lagningu umræddra raflagna.“heil

Smelltu hér til þess að sjá greinina í heild 

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 
Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu
Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600