Fréttir

Verðið lækkar í nokkrum hverfum

Grein úr Morgunblaðinu 26.1.2018

Verð á íbúðum í fjölbýli í Reykjavík lækkaði í fjórum póstnúmerum af sex á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Þetta kemur fram í greiningu Þjóðskrár Íslands sem unnin var fyrir Morgunblaðið. 

Sé verðið flokkað með og án nýbygginga í póstnúmerunum sex er niðurstaða sú að verðið lækkaði í níu tilvikum af tólf.

Verðið lækkaði hlutfallslega mest í miðborg Reykjavíkur, 101 Reykjavík, eða um 3,3%. Án nýbygginga lækkaði verðið um 2,5%. Í krónum talið lækkaði verðið um 18 og 13 þúsund á fermetra. Það samsvara 1,8 og 1,3 milljónum á 100 fermetra.

Verðið hækkaði um 0,1% í Hlíðunum og Holtunum í Reykjavík, 105 Reykjavík, eða um rúmar 400 krónur á fermetra. Án nýbygginga lækkaði verðið hins vegar um 0,6%, eða um rúmar 2.600 krónur. Hækkunin samsvarar 40.000 kr. en lækkunin 260.000 kr. á 100 fermetra. 

Þá lækkaði verðið um 1,7% í Vesturbænum, 107 Reykjavík og um 1,5% án nýbygginga. Þessi hækkun samsvarar 1,9 milljónum á hverja fermetra.

Verðið lækkaði hins vegar um 1,2% í Breiðholtinu, 111 Reykjavík, eða um 4.700 krónur á fermetra. Sama lækkun var án nýbygginga. Þessi lækkun samsvarar 470 þúsund krónum á hverja 100 fermetra. 

Loks lækkaði verðið um 1,6% í Grafarvogi, 112 Reykjavík, eða um 6.500 kónur á fermetra. Sama lækkun án nýbygginga. Þessi lækkun samsvarar 650 þúsund krónum á hverja 100 fermetra. 

Veitir aðeins vísbendingu

Tekið skal fram að mismargir kaupsamningar eru að baki meðaltali hvers fjórðungs. Þá eru gæði húsnæðis mismunandi. Verktaki sem ræddi við Morgunblaðið í trausti nafnleyndar benti til dæmis á að sala á nýju fjölbýlishúsi í grónu hverfi gæti haft mikil áhrif á einum fjórðungi. Það megi ekki gera of mikið úr sveiflum milli fjórðunga. 

Sé meðalverðið borið saman milli fjórða fjórðungs 2016 og 2017 kemur í ljós að verðið í áðurnefndum sex póstnúmerum hefur hækkað um 7,7% til 18,5%. Þap er mikil hækkun í raunvirði. Tólf mánaða verðbólga mælist nú 1,9%.

Fram kom í Morgunblaðinu í lok október að meðalverð seldra íbúða í fjölbýli í tveimur hverfum í Reykjavík lækkaði milli 2. og 3. fjórðungs 2017. Virtist það fyrsta vísbendingin um lækkanir eftir stöðuga hækkun fasteignaverðs síðustu ár.

Þurfa að lækka verðið

Samkvæmt öruggum heimildum Morgunblaðsins hafa fjárfestar gripið til þess ráðs að lækka verð í nýjum fjölbýlishúsum á höfuðborgarsvæðinu. Var það gert til að örva eftirspurn. 

Dæmi um slíkt er fjölbýlishúsið Álalind 10. Samkvæmt tölvupósti frá fasteignasala var verð margra íbúða lækkað. Til dæmis lækkaði verð á einni úr 59 í 56 milljónir og á annari úr 58,5 í 55,5 milljónir. Þá fór verð á íbúð úr 63,5 milljónum í 59,5 milljónir og á annarri úr 64,5 í 59 milljónir. Tvö síðarnefndu dæmin samsvara 9,3% og 6,7% lækkun.

Minni verðbólga en ella

Jón Bjarki Bentsson, aðalhafræðingur Íslansbanka, segir þessar tölur koma á óvart. Greining Íslandsbanka hafi spáð 7% hækkun fasteignaverðs á landvísu í ár. Það samsvari ríflega 0,5% hækkun á mánuði. 

Ef verðið hækki minna en Greiningin spáði muni draga úr verðbólgu í ár. Húsnæðisliðurinn hafi enda drifið verðbólguna á síðustu misserum. Hann bendir á að hægt hafi á hækkunum á fjórða fjórðungi. Jafnframt dragi jafnan úr veltu í desember.

Hann telur rétt að bíða eftir nýjum tölum um veltu og verð í janúar áður en frekari ályktanir eru dregnar af þróuninni. 

Má í þessu efni rifja upp að án húsnæðisliðarins hefði verið verðhjöðnun á síðustu misserum. Verð innfluttra vara hefur enda lækkað.

Smelltu hér til þess að sjá greinina í heild

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 
Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu
Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600