Fréttir

Hækkuðu um 82% í verði

Grein af mbl.is 22.10.2017

Reykja­vík­ur­borg keypti í byrj­un hausts 24 íbúðir á Grens­ás­vegi 12 fyr­ir 785 millj­ón­ir króna. Selj­andi keypti sama verk­efni af fyrri eig­anda í maí 2015 og var kaup­verðið þá 432,5 millj­ón­ir. Sam­kvæmt því hef­ur verðið hækkað um tæp 82% frá 2015.

Um er að ræða 2. og 3. hæð í stein­steyptu at­vinnu­hús­næði sem var byggt árin 1963-8. Verk­efnið fel­ur í sér að byggð er inn­dreg­in 4. hæð ofan á húsið. Með því er hægt að hafa þrjár íbúðir á hverri hæð, alls 24 íbúðir.

For­saga máls­ins er sú að fé­lagið Hraun­brekka ehf. keypti um­rædda eign af Ari­on banka í nóv­em­ber 2013. Sam­hliða keypti Hraun­brekka aðra eign í sama húsi. Kaup­verð fyr­ir báðar eign­ir var 96 millj­ón­ir.

Má geta þess að áður hafi verið til­kynnt um nauðung­ar­sölu þegar eign­irn­ar fóru til Ari­on banka.

Árið 2015 sel­ur Hraun­brekka svo báðar eign­irn­ar til tveggja aðila. Ann­ars veg­ar seldi það fé­lag­inu Leigu­afli stærri eign­ina, þá sem borg­in hef­ur keypt, fyr­ir 432,5 millj­ón­ir. Sam­kvæmt kaup­samn­ingi sem er aðgengi­leg­ur í fast­eigna­skrá skyldi eign­in af­hend­ast með 24 íbúðum, þar með talið 8 íbúðum á nýrri 4. hæð í hús­inu. Skyldu vera 8 íbúðir á 2. hæð og 8 íbúðir á 3. hæð, sam­tals 24 íbúðir með nýrri 4. hæð.

Af­henda átti íbúðirn­ar 1. nóv­em­ber 2015 og skyldi greiðast 20 millj­óna bón­us­greiðsla ef hús­næðið yrði til­búið á þeim tíma. Ljóst er að sú tíma­setn­ing stóðst ekki. Með þeirri greiðslu virðist heild­ar­kaup­verðið hefðu farið í 452,5 millj­ón­ir.

Mun­ar 14 millj­ón­um á íbúð

Að teknu til­liti til slíkr­ar auka­greiðslu hefði meðal­verð á íbúð verið 18,85 millj­ón­ir króna. Til sam­an­b­urðar var kaup­verðið í haust, þegar borg­in keypti af fé­lag­inu Leigu­afli, um 32,7 millj­ón­ir á íbúð. Mun­ar hér um 14 millj­ón­um króna á íbúð. Ber að hafa í huga að vaxta­kostnaður get­ur verið tölu­verður ef töf verður á svo um­fangs­mik­illi fram­kvæmd.

Sam­kvæmt fyr­ir­tækja­skrá Cred­it­in­fo eru Kristrún S. Þor­steins­dótt­ir og Bragi Ólafs­son end­an­leg­ir eig­end­ur að 95% hluta­fjár í Leigu­afli. Þess má geta að Kristrún er í sam­búð með Sig­ur­jóni Þ. Árna­syni, fv. banka­stjóra Lands­bank­ans. Bragi er stjórn­ar­maður í sjö fé­lög­um, þar með talið Leigu­fé­lagi Reykja­vík­ur.

Hins veg­ar seldi Hraun­brekka smærri eign­ina til fé­lags­ins Karl mikli. Kaup­samn­ing­ur virðist ekki vera aðgengi­leg­ur í fast­eigna­skrá. Hins veg­ar er þar að finna leigu­samn­ing sem Karl mikli gerði síðan við Útlend­inga­stofn­un vegna hús­næðis­ins. Sá samn­ing­ur hljóðaði upp á 3,18 millj­ón­ir á mánuði. Samið var til 12 mánaða. Þessi húsa­leiga er ótengd kaup­um borg­ar­inn­ar, enda er um aðra fast­eign að ræða. Bend­ir leigu­samn­ing­ur til að leigð hafi verið út sam­tals 28 her­bergi. Af því leiðir að leiga á her­bergi var að meðaltali yfir 100 þúsund á mánuði. Hjálm­ar Sveins­son, formaður um­hverf­is- og skipu­lags­ráðs, vísaði fyr­ir­spurn um kaup á íbúðum til emb­ætt­is­manna.

Kaupa 300 fé­lags­leg­ar íbúðir

Hrólf­ur Jóns­son, skrif­stofu­stjóri á skrif­stofu eigna- og at­vinnuþró­un­ar hjá Reykja­vík­ur­borg, varð til svara.

Hrólf­ur seg­ir borg­ina munu kaupa 300 fé­lags­leg­ar íbúðir á næstu árum. Það er liður í aukn­ingu á fé­lags­legu hús­næði sem var samþykkt í borg­ar­ráði 22. ág­úst sl. Hluti þess­ara 300 íbúða séu nýj­ar íbúðir sem verða af­hent­ar 2018-2020.

Hrólf­ur seg­ir aðspurður að íbúðir á Grens­ás­vegi 12 verði leigðar til um­sækj­enda hjá Fé­lags­bú­stöðum.

„Þessi íbúðakaup eru fyrst og fremst hugsuð sem bráðabirgðaaðgerð. Ég vil ekki kalla það neyðarúr­ræði.“

Spurður hvort Grens­ás­veg­ur 12 verði þar með ekki í lang­tíma­eigu borg­ar­inn­ar seg­ir Hrólf­ur íbú­ana munu búa þar tíma­bundið þar til þeir fá fasta íbúð hjá Fé­lags­bú­stöðum.

„Til að brúa þetta bil út af þess­ari miklu þörf var ákveðið að kaupa þess­ar íbúðir. Þá í stað þess að Fé­lags­bú­staðir færu að breyta sín­um regl­um varðandi það hvar þeir kaupa íbúðir. Þá fyrst og fremst vegna þess að Fé­lags­bú­staðir þurfa að vera sjálf­bær­ir um leigu. Ef við kaup­um íbúð sem kost­ar til dæm­is 400 þúsund á fer­metra myndu vænt­an­leg­ir leigj­end­ur í fé­lags­legri íbúð ekki geta staðið und­ir svo háu verði. Þá er sagt sem svo að við þurf­um að bregðast við neyðarástandi á hús­næðismarkaði. Þess vegna ger­ir eigna­svið borg­ar­inn­ar þetta til að brúa bilið og svo selj­um við þess­ar íbúðir aft­ur eft­ir 2-5 ár.“

Um 551 þúsund á fer­metra

Fer­metra­verð á Grens­ás­vegi 12 er 551 þúsund krón­ur fyr­ir birta fer­metra í 24 íbúðum. Sam­kvæmt fast­eigna­skrá er þetta fer­metra­verð yfir meðallagi á höfuðborg­ar­svæðinu.

Spurður út í verðið seg­ir Hrólf­ur ekki hafa náðst samn­inga um annað.

„Svona er markaður­inn núna. Það var þráttað og prúttað en þetta var niðurstaðan. Þetta eru hlut­falls­lega dýr­ar íbúðir, eða ein­stak­lings­rými. Þarna er dýra rým­inu, vot­rým­inu, það er baði og eld­húsi, deilt niður á fáa fer­metra. Eft­ir því sem byggðar eru stærri íbúðir verður bygg­ing­ar­kostnaður á fer­metra lægri.“

Hrólf­ur nefn­ir sem dæmi að í lög­um um stofnstyrki til Fé­lags­bú­staða vegna íbúðakaupa sé miðað við 220 þúsund á fer­metra. Svo er bætt við 5 millj­ón­um á íbúð. „Það er ein­mitt til að dekka vot­rým­in. Litl­ar íbúðir eru enda hlut­falls­lega dýr­ari en stór­ar.“

Spurður hvort ein­hverj­ar breyt­ing­ar hafi orðið á fyr­ir­hugaðri upp­bygg­ingu á Grens­ás­vegi 12, í kjöl­far kaup­samn­ings sem gerður var í maí 2015, seg­ist Hrólf­ur ekki telja að svo sé.

„Það er al­veg ör­ugg­lega ekki verið að bruðla þarna. Við stóðum frammi fyr­ir því að kaupa þetta eða ekki. Síðan ger­um við ráð fyr­ir að tapa ekki miklu á þessu þegar við selj­um íbúðirn­ar aft­ur. Þetta er auðvitað allt um­deil­an­legt. En það var tek­in ákvörðun um að reyna að leysa þenn­an vanda. Við erum jafn­framt að ljúka samn­ing­um við Ístak um Víðines uppi í Álfs­nesi. Þar verða 14 her­bergi fyr­ir ein­stak­linga. Íbúar munu geta fengið far í bæ­inn kvölds og morgna. Það er alls staðar reynt að finna lausn­ir [á hús­næðis­vand­an­um].“

Um þúsund manns á biðlista

Hrólf­ur set­ur kaup­in í stærra sam­hengi. „Það eru þúsund manns á biðlista eft­ir íbúðum hjá Fé­lags­bú­stöðum. Það er íbúðafé­lag í eigu borg­ar­inn­ar sem á rúm­lega tvö þúsund íbúðir. Síðan erum við á skrif­stofu eigna- og at­vinnuþró­un­ar að semja um innviðagjöld við kaup á fé­lags­leg­um íbúðum [á þétt­ing­ar­reit­um]. Þar með tald­ar 14 íbúðir á svo­nefnd­um RÚV-reit. Sam­tals erum við að semja um kaup á rúm­lega 300 íbúðum fyr­ir hönd Fé­lags­bú­staða. Þar er ým­ist samið um fast verð eða kauprétt. Þarna er meðal ann­ars um að ræða íbúðir í Voga­byggð I og II og á Baróns­reit. Þess­ar íbúðir eru hluti af innviðasamn­ing­um, þegar lóðir eru end­ur­skipu­lagðar og at­vinnu­hús­næði breytt í íbúðar­hús­næði.“

 

Spurður hvort hluti innviðagjalda sé inn­heimt­ur í formi íbúða seg­ir Hrólf­ur vera for­dæmi fyr­ir því. Að jafnaði sé þó samið um kauprétt á fé­lags­leg­um íbúðum á þétt­ing­ar­svæðum. Innviðagjöld­in eiga að standa straum af kostnaði borg­ar­inn­ar af innviðum á at­vinnusvæðum sem breytt er í íbúðarsvæði.

 

Smelltu hér til þess að lesa greinina í heild

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 
Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu
Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600