Fréttir

Lífeyrissjóðir stórauka íbúðalánin

Grein úr Morgunblaðinu 06.10.2017

Hlutur lífeyrissjóða í nýjum íbúðalánum hefur aukist mikið síðustu tvö ár. Það bendir til að mörg heimili hafi endurfjármagnað lán með ódýrari lánum lífeyrissjóða. Þetta segir Guðmundur Sigfinnsson, hagfræðingur á húsnæðissviði Íbúðalánasjóðs. Hann bendir á að hlutur lífeyrissjóðanna í íbúðalánum hafi verið um 12% í ágúst 2015 en sé nú 20%. Til samanburðar hafi hlutur Íbúðalánasjóðs lækkað úr 40% í 26% á tímabilinu. Hlutur bankanna hefur á sama tíma aukist úr 48% í 54%.

„Ný útlán eru nú að stærstu leyti hjá lífeyrissjóðum og bönkum. Hlutverk Íbúðalánasjóðs hefur hins vegar verið að breytast úr því að vera fyrst og fremst lánasjóður í að vera sú stofnun sem ber ábyrgð á framkvæmd húsnæðismála.“ Buðu óverðtryggðu lánin 2015 Hann bendir á að hlutur verðtryggðra íbúðalána sé um 87% hjá lífeyrissjóðunum en hlutur óverðtryggðu lánanna 13%. Hann rifjar upp að sjóðirnir hafi byrjað að lána óverðtryggð íbúðalán í árslok 2015. Íbúðalánasjóður er eingöngu með verðtryggð lán. Staða íbúðalána heimila hjá sjóðnum er nú um 390 milljarðar (samsvarar „öðrum fjármálastofnunum“ á grafi hér).

Ný útlán lífeyrissjóðanna voru um 95 milljarðar á fyrstu átta mánuðum ársins. Þau er að langstærstu leyti vegna íbúðalána, þ.e. lána til sjóðfélaga með veði í íbúð. Sprenging hefur orðið í útlánum sjóðanna. Þau voru 11,7 milljarðar 2014, 21,7 milljarðar 2015 og 89,2 milljarðar 2016. Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyris- sjóðsins, segir útlán sjóðanna til íbúðakaupa komin til að vera. Þó sé ekki hægt að útiloka að vægi banka, eða annarra milliliða, aukist á ný. „Það sem hefur breyst er að lífeyrissjóðir eru oftar fyrsti valkostur lántaka. Sjóðirnir hafa að einhverju leyti tekið við hlutverki Íbúðalánasjóðs. Þetta er í sjálfu sér formbreyting. Áður fjármögnuðu sjóðirnir lánin með kaupum á skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði. Nú eru þeir oftar að lána milliliðalaust,“ segir Gunnar.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, bendir á að lífeyrissjóðirnir verji orðið stórum hluta af ráðstöfunartekjum sínum til útlána til íbúðakaupa. Þeir fjármunir fari því ekki í annað á meðan. Með hliðsjón af stærð sjóðanna í íslensku hagkerfi hafi þetta áhrif á aðra eignamarkaði. Það kunni að endurspeglast á hlutabréfamarkaði. Svigrúmið nær fullnýtt Ari Skúlason, sérfræðingur hjá Landsbankanum, segir erfitt fyrir lífeyrissjóði að lækka vexti verðtryggðra íbúðalána mikið meira en orðið er. „Þeir geta boðið lægri vexti en bankarnir, enda ekki undir sama eftirliti og borga ekki sömu skatta og hafa ekki sama fjármögnunarkostnað svo eitthvað sé nefnt.“ Ari segir aðspurður að regluverk og skattar á banka séu því orðin hindranir í vegi frekari vaxtalækkana. Með því að einfalda kerfið skapist svigrúm til að lækka vexti. „Það voru lagðir nýir skattar á bankana eftir hrun. Bankaskattur átti að vera tímabundinn. Svo átti að leggja hann niður. Það var ekki gert eins og oft gildir um tímabundna skattlagningu,“ segir Ari. Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, segir bankana ekki geta gengið mikið lengra í að lækka vexti af íbúðalánum. Þeir séu nú hlaðnir kostnaði vegna eiginfjárauka, bankaskatts, innlánatryggingargjalds o.fl. sem lífeyrissjóðirnir þurfi ekki að bera. Það skapi sjóðunum ákveðið forskot.

Smelltu hér til þess að sjá greinina í heild

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 
Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu
Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600