Fréttir

Telur að borgin hefði átt að bíða með söluna

Grein af ruv.is 25.07.2017

Borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, telur að Reykjavíkurborg hafi orðið af 200 milljónum króna með því að selja fasteignir á Laugavegi og Skólavörðustíg árið 2014. Bíða hefði átt með söluna til að selja þær fyrir hærra verð. Fulltrúar meirihlutans telja að ekki sé hægt að bera saman byggingarrétt fyrir verslun á Laugarvegi og hótel við Vonarstræti.

Borgarráð samþykkti á fundi á fimmtudag að selja Íslandshótelum fasteign að Vonarstræti 4 ásamt byggingarrétti og eignarlóð. Heildarkaupverð, að frádregnum kostnaði við fornleifauppgröft á lóðinni, sem borgin greiðir, er tæpar 451,7 milljónir króna. 

Söluverðið, sem byggt er á verðmati, er um 500.000 krónur á fermetra fyrir fasteignina og 135.000 krónur fyrir byggingarréttinn, samkvæmt kaupsamningnum. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, telur að miðað við verðmatið hefði mátt fá mun meira fyrir fasteignir á Laugavegi 4-6 og Skólavörðustíg 1a, sem borgin seldi árið 2014. Söluverð þeirra eigna var 365 milljónir króna. 

Segja verðið hafa byggt á 15 mánaða gömlu mati

Í bókun Sveinbjargar á fundi borgarráðs á fimmtudag segir að borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina hafi mótmælt sölunni á sínum tíma og talið verðið of lágt. Það hafi byggt á 15 mánaða gömlu verðmati á sama tíma og bent hafi til þess að fasteignaverð færi hækkandi næstu ár. Samkvæmt verðmati á Vonarstræti 4 hefði því mátt fá tæpar 200 milljónir í viðbót fyrir eignirnar á Laugavegi og Skólavörðustíg árið 2014, eða samtals um 551 milljón króna, að mati Sveinbjargar. 

Ekki hægt að bera saman verslun og hótel

Fulltrúar meirihlutans svöruðu þessari gagnrýni Sveinbjargar á fundinum og benda á að markmiðið sé alltaf að fá hámarksverð fyrir eignir borgarinnar. Salan á eignum á Laugavegi árið 2014 hafi ekki verið byggð á verðmati, heldur á söluferli þar sem eignirnar voru auglýstar og í kjölfarið seldar hæstbjóðanda. Þá segir jafnframt í bókun meirihlutans að byggingarréttur fyrir bakhús og kjallara, sem á að hýsa verslun á Laugarvegi, sé ekki sambærilegur byggingarrétti fyrir hótel á besta stað við Vonarstræti.

Sömu fasteignasalar fengnir til að meta og selja

Í svari frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar við fyrirspurn borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina vegna sölunnar árið 2014 kemur fram að eignirnar hafi í byrjun ekki verið settar í hefðbundið söluferli, heldur var áhugasömum kaupendum boðið að senda inn upplýsingar um fjárhagsstöðu og lýsa sínum hugmyndum um framkvæmdir. Eftir að borgarráð hafnaði tveimur tilboðum, sem ekki þóttu viðeigandi miðað við verðmat, var tveimur fasteignasölum heimilað að afla tilboða.

Í svarinu segir jafnframt að fasteignasölurnar tvær, Miklaborg og Fasteignamarkaðurinn, hafi verið þær sömu og verðmátu eignirnar upphaflega. Þetta gagnrýndu borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina með bókun á borgarráðsfundi í október 2014. Töldu þeir „verulega skorta á fagleg og gagnsæ vinnubrögð við sölu á umræddum fasteignum, þar sem sömu fasteignasalar gera verðmöt á eignunum og fá þær í sölumeðferð,“ sagði í bókuninni. 

Smelltu hér til þess að lesa greinina í heild

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 
Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu
Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600