Fréttir

Byggingargeirinn ýtir undir hækkun

Grein úr Stundinni 16.03.17

Umsvif í byggingargeiranum hafa aukist mjög síðustu mánuði og sett sinn svip á höfuðborgina með tilheyrandi byggingarkrönum og fjöldann allan af iðnaðarmönnum. Síðustu ár hefur fjöldi nýbygginga ekki haldið í við fjölgun íbúa og þrátt fyrir aukin umsvif er það mat sérfræðinga að erfitt sé fyrir byggingariðnaðinn að mæta þeim skorti sem myndast hefur síðustu ár. Aukin eftirspurn hefur ýtt fasteignaverði upp og þrátt fyrir að sífellt verði hagstæðara að byggja er ekki nægilega fjárfest í nýbyggingum og mikil vöntun er á iðnmenntuðu fólki. Áætlað er að til þess að ná verðstöðuleika á húsnæðismarkaði þurfi að byggja 8-10 þúsund nýjar íbúðir, fram til ársloka 2019.

,,Þarna er atvinnugrein sem hvar nánast á einni nóttu"

Í skýrslu sem greiningardeild Arion banka gaf út nýverið um húsnæðismarkaðinn er spáð áframhaldandi verðhækkunum á fasteignamarkaði. Konráð S. Guðjónsson, einn af höfundum skýrslunnar, segir að spárnar séu byggðar á því að skortur á húsnæði muni aukast. ,,Þarna er atvinnugrein sem hvarf nánast á einni nóttu og skiljanlegt að hún sé ekki í stakk búin til að vinna upp þann svakalega skort sem hefur myndast síðustu ár," segir Konráð í samtali við Stundina.

Mikill óstöðuleiki er á byggingarmarkaði sem stjórnast mikið af hagsveiflum sem eru miklar hér á landi. Þegar markaðurinn fellur með reglulegu millibili stöðvast nýbyggingar sem leiðir til verkefnaskorts fyrir iðnaðarmen. Margir hverjir flytja úr landi eða snúa sér að öðrum atvinnugreinum. Til samanburðar var jafn mikið byggt á einu ári, árinu 2007, eins og samtals á sjö árum eftir hrun.

Þegar vel árar, eins og núna, fjölgar verkefnum en fáir iðnaðarmenn eru eftir til að vinna þá vinnu. Vinnudagar verða því lengri og erlent skammtímavinnuafl flutt inn til landsins, oft á vegum starfsmannaleiga. Því er mikil starfsmannavelta í geiranum og vinnuvikur iðanarmanna eru mjög háðar stöðunni í hagkerfinu hverju sinni. Konráð segir að byggingargeirinn hafi enn ekki tekið við sér að fullu eftir hrun: ,,Svona högg dregur mjög úr byggingariðnaðinum og langan tíma tekur að lífga hann við," segir Konráð.

Mikil þörf á litlum íbúðum

Í skýrslu greiningardeildar Arion banka segir að hagnaður af því að byggja verið sífellt meiri. Eftirspurn eftir litlum íbúðum hefur aukist mest en vegna lækkandi fæðingartíðni búa nú færri einstaklingar í hverri íbúð. Miðað við hækkandi íbúðarverð er áætlað að á næstu fjórum árum muni hagnaður af því að byggja íbúðarhúsnæði aukast meira en hagnaður af byggingu hótela. Konráð segir óljóst hversu mikil áhrif aukin umsvif í hótelbyggingum hafi haft á uppbyggingu íbúða. ,,Það er ómögulegt að fullyrða um hver áhrifin hefðu orðið, kannski ef hótelin hefðu ekki verið byggð hefði vöxtur í byggingariðnaði verið minni," segir Konráð.

Sérstaklega mikil skortur hefur myndast á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Miðað er við að einstaklingum fjölgu um 2.500 árlega. Til samanburðar fjölgaði íbúðum í byggingu aðeins um hundrað á síðasta ári. Þar er bæði átt við þá einstaklinga sem flytja úr foreldrahúsum og þá sem flytja til höfuðborgarsvæðisins annarsstaðar að. Síðustu fimm ár hefur hagnaður við húsbyggingar aukist mikið en þrátt fyrri það hafa fjárfestingar í byggingariðnaðinum ekki tekið við sér að fullu. Til að ná verðstöðuleika á fasteignamarkaði er áætlað að byggja þurfi milli 8 og 10 þúsund íbúðir til ársloka 2019.

Norðmenn byggja næstum helmingi hraðar

Ævar Rafn Hafþórsson fjármálahagfræðingur rannsakaði íslenskan byggingariðnað í meistararitgerð sinni við Háskóla Íslands. Hann komst að því að á Íslandi þurfi fleiri vinnustundir á hvern verkamann til að byggja en í Noregi. Að jafnaði tekur 31-37 vinnustundir að byggja hvern fermetra hér á landi en aðeins 23 vinnustundir í Noregi. Á Íslandi þarf vinnuafl því að jafnaði 48% fleiri vinnustundir til að vinna sömu vinnuna, og iðnaðarmenn í Noregi því með næstum helmingi meiri framleiðni en á Íslandi. Konráð S. Guðjónsson segir að byggingargeirinn í Noregi sé frekar undantekning og að á Íslandi sé framleiðnin ekki langt frá því sem gerist á hinum Norðurlöndunum. Hins vegar sé ljóst að uppbygging á húsnæðismarkaði hér á landi sé of hæg. Vandamálin megi helst rekja til hagsveiflna sem hér eru örari og dýpri en á hinum Norðurlöndunum.

Myglusveppir finnast í auknum mæli

Síðustu ár hafa myglusveppir fundist í miklum mæli í íslenskum byggingum og krefast aukins viðhalds og mannafla. Nýverið greindi Morgunblaðið frá þeim vanda sem skapast hefur vegna byggingaraðferða hér á landi sem leitt hefur til rakasöfnunar og myglumyndunar. Á Íslandi eru veggir einangraðir að innan frekar en að utan líkt og gerist erlendis. Hin svokallaði útveggur er notaður sem veðurvörn en hefur leitt til þess að vatn hefur lekið milli veggjarins og einangrunarinnar, safnað saman raka sem að lokum myndar myglusvepp. Víða um land hafa myglusveppir fundist í íbúðarhúsnæði sem og opinberum stofnunumm. Stundin hefur fjallað um hvernig mygla hefur haft áhrif á kennslu í Listaháskóla Íslands en auk þess hefur mygla fundist mun víðar eins og á Landspítalanum, í velferðarráðuneytinu og í byggingu Landsbankans. Margar íbúðir sem nú þegar eru á markaði krefjast því aukins kostnaðar vegna viðhalds á húsnæði.

Leiguíbúðum til ferðamanna fjölgar meira en nýbyggingum

Vöxtur í ferðaþjónustu hefur töluverð áhrif á húsnæðismarkaðinn og hefur íbúðum í útleigu öllum stundum aukist gríðarlega milli ára. Þetta kemur fram í nýútgefinni skýrslu greiningardeildar Íslandsbanka um íslenska ferðaþjónustu. Íbúðum sem voru í leigu á Airbnb öllum stundum, þegar horft er á íbúðir sem eru í heilsársútleigu á Airbnb, fjölgaði um 509 íbúðir milli áranna 2015 og 2016. Á sama tíma voru byggðar 399 nýjar íbúðir í Reykjavík. Aukning leiguíbúðatil ferðamanna hefur því verið töluvert meiri en fjölgun nýrra íbúða í Reykjavík. Í skýrslunni segir að fjölgun íbúða í heilsársútleigu umfram nýbyggingar hafi því haft töluverð áhrif á mikla hækkun húsnæðisverð.

Konráð S.Guðjónsson segir að áhrif ferðaþjónustunnar á húsnæðisverð séu mest vegna aukningar í erlendu vinnuafl til landsins. ,,Ég tel að Airbnb sé ekki stærstu áhrifin sem ferðaþjónustan hefur á húsnæðismarkaðinn. Undanfarið hefur vinnuafl flust til landsins sem allt þarf á húsnæði að halda. Kaupmáttur hefur einnig aukist sem hækkar verðið og hefur miklur meiri áhrif en Airbnb," segir Konráð.

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 
Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu
Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600