Fréttir

Ekki nálægt 2007-veltunni

Grein úr Viðskiptablaðinu 20.02.2017

Á síðasta ári hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 15%. Vísitalan hefur ekki hækkað jafnmikið á einu ári síðan 2007 en nam hækkunin einnig 15%.  Munurinn á markaðnum nú og árið 2007 er hins vegar sá að veltan var miklu meiri árið 2007. Á síðasta ári var veltan um 350 milljarðar króna en fyrir 10 árum nam hún 492 milljörðum, reiknað á verðlagi ársins 2016.

Á síðustu 15 árum hefur velta á fasteignamarkaði aldrei verið nálægt því að ná þeim hæðum sem hún gerði árið 2007. Næst komst hún því árið 2005 þegar veltan nam tæplega 401 milljarði króna. Minnsta veltan var árið 2009 eða 90 milljarðar, og árið 2010 var hún 99 milljarðar.

Mesta árshækkunin á fasteignamarkaði var samt ekki árið 2007. Á síðustu 15 árum var mesta hækkunin árið  2005 þegar vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 31%. Árið 2004 voru líka miklar hækkanir á fasteignamarkaði en þá hækkaði vísitalan um ríflega 23%.

Árið 2004 voru líka flestir kaupsamningar gerðir eða rétt ríflega 10 þúsund. Þetta á sér líklega þær skýringar að árið 2004 fóru bankar að bjóða upp á fasteignaveðlán og tiltölulega auðvelt var fyrir hvern sem er að fá 100% lán. Til samanburðar þá voru gerðir tæplega 8 þúsund kaupsamningar í fyrra, það eru færri samningar en gerðir voru árin 2003, 2004, 2005 og 2007.

 

Það vekur athygli að á milli áranna 2015 og 2016 fjölgaði kaupsamningum fasteigna á höfuðborgarsvæðinu um 7,8% samanborið við 17,6% aukningu milli áranna 2014 og 2015. Á þessu eru líklega þær skýringar að lítið framboð er af íbúðum, aðallega vegna þess að of lítið hefur verið byggt af nýjum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu undanfarið og þá sérstaklega í Reykjavík.

Smelltu hér til þess að lesa greinina í heild

 

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 
Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu
Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600