Fréttir

Hönnun hverfisins í höndum almennings

Grein úr Fréttablaðinu 11.02.2017

SAMFÉLAG ,,Á viðbótarfermeterinn að vera í stofunni eða svefnherberginu, á eldhúsið að vera opið eða á að vera til sameiginlegt rými til afnota fyrir íbúa? Með þessari nálgun mun almenningur geta haft bein áhrif á það hvernig hverfið, húsin og íbúðirnar mótast," segir Ingvi Jónasson, framkvæmdarstjóri Klasa, sem sér um framkvæmd verkefnis ásamt Regin fasteignafélagi og Smárabyggð ehf.

Ný 620 íbúða byggð mun rísa í Smáranum, sunnan Smáralindar í Kópavogi, og gefst almenningi tækifæri á að hafa áhrif á hönnun og útfærslu hverfisins og íbúðanna með beinum hætti. ,,Við viljum fá fólk til að móta verkefnið með okkur og segja hvað því finnst skipta mestu máli við útfærslu á nútímaíbúðum og hverfi sem býður upp á nánast alla þjónustu sem völ er á, "segir hann.

Íbúðirnar verða frá um 50 fermetrum að stærð og verður efnt til nafnaleiks í samstarfi við Kópavogsbæ um götunöfn og nafn á aðaltorgið í hverfinu. Kynning á uppbyggingu hverfisins verður í Smáralind og hófst í gær. Á sama tíma verður tekin í notkun gagnvirk síða, 201.is, þar sem fólki gefst kostur á að svara könnun sem hugmyndin er að nýta fyrir hönnun og uppbyggingu á byggingarreitnum 201 Smári.

Halldór Eyjólfsson, þróunarstjóri Klasa, segir verkefnið spennandi og mjög áhugavert að fá fram áherslur íbúa. ,,Á skömmum tíma hafa orðið mjög miklar breytingar á því hvernig við lifum og húsnæðisþarfir fólks eru ekki þær sömu og þær voru fyrir nokkrum áratugum. Okkar daglega líf hefur breyst en íbúðirnar hafa ekki fylgt þróuninni nema að litlu leyti miðað við hinar hröðu tæknibreytingar og lausnir sem hafa orðið til. Nútímaheimilið er svo miklu meira en bara þak yfir höfuðið. Það þarf að uppfylla kröfur um öryggi og tæknilausnir. Mikil áhersla verður lögð á að nýta hvern fermetra til hins ýtrasta og með ýmsum snjöllum tæknilausnum má hámarka þá nýtinguna en um leið tryggja að öll nútímaþægindi séu til staðar, " segir Halldór.

Smelltu hér til þess að lesa greinina í heild

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 
Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu
Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600