Fréttir

Spá 34% hækkun fasteignaverðs

Grein úr Morgunblaðinu 1.2.2017
Í nýrri skýrslu greiningardeildar Arion banka er gert ráð fyrir að húsnæðisverð muni hækka um 34,4% fram til ársloka 2019. Er matið háð ströngum forsendum og bendir bankinn á að breyttar forsendur geti aukið eða slegið á verðhækkanir. Sviðsmynd bankans gerir þó ráð fyrir að húsnæðisverð muni hækka um 14% á þessu ári, 9,7% árið 2018 og 7,5% árið 2019.

Segir bankinn að húsnæðisverð hafi hækkað sífellt hraðar síðustu mánuði og að árshækkunin á höfuðborgarsvæðinu hafi í desember numið 15%. Þá hafi önnur svæði einnig tekið við sér og að húsnæðisverð utan höfuðborgarsvæðisins hafi hækkað um 20% síðastliðna 20 mánuði og er sú hækkun að mestu tengd verðhækkunum í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.

Skýringar á sífellt hærra verði tengjast fyrst og fremst hagstæðu efnahagsástandi, fólksfjölgun, kaupmáttaraukningu og góðu aðgengi að lánsfé. Þá bendir Arion banki einnig á að skortur á íbúðarhúsnæði hafi sín áhrif til hækkunar. Þannig þurfi að byggja að minnsta kosti 8.000 íbúðir á næstu árum til að halda í við fólksfjölgun og að inni í þeim tölum sé ekki fyllilega tekið tillit til uppsafnaðrar þarfar á síðustu árum. Spá bankans bendir til að litlar líkur ´seu á að takast muni að anna fyrrnefndri eftirspurn.

Gangi spá bankans eftir mun húsnæðisverð að öllum líkindum hækka töluvert umfram flestar undirliggjandi stærðir í hagkerfinu, meðal annars kaupmátt ráðstöfunartekna. Í skýrslunni er bent á að af þeim sökum sé ástæða til að vara við ofhitnun á markaðnum til lengri tíma litið.

Smelltu hér til þess að lesa greinina í heild

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 
Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu
Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600