Fréttir

Stuðningur við fyrstu kaup

Grein úr Fréttablaðinu 16.12.2016

Nýju lögin, sem samþykkt voru á Alþingi 12. október 2016, eiga að auðvelda fólki, sér í lagi ungu fólki, að kaupa sína fyrstu fasteign.

Tilteknar eru þrjár leiðir sem fólk getur valið á milli við ráðstöfun á viðbótariðgjaldi. Í fyrsta lagi að verja uppsöfnuðu viðbótariðgjaldi til kaupa á fyrstu íbúð, í öðru lagi að ráðstafa iðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð og í þriðja lagi getur fólk nýtt iðgjaldið sem afborgun inn á óverðtryggt lán og sem greiðslu inn á höfuðstól þess.

Upphæð miðuð við einstaklinga

Í nýju lögunum er allt byggt á einstaklingsgrunni sem er nokkur breyting frá fyrra úrræði þar sem ein fjárhæð átti við einhleypa en önnur fyrir samsköttuð hjón. Hámarksúttekt á hverju tólf mánaða tímabili er 500 þúsund krónur, og er þar átt við samanlagt framlag einstaklings og vinnuveitanda. Ef tveir einstaklingar kaupa saman íbúð og báðir eru að kaupa sína fyrstu íbúð er upphæðin samtals ein milljón króna. Þessar greiðslur úr séreignalífeyrissparnaði eru ekki skattskyldar.

Þessi lög taka gildi 1. júlí 2017 og varða kaup eftir þann tíma. Hámarkstími úrræðisins er samfellt tíu ára tímabil fyrir hvern einstakling, þannig gæti sá sem byrjar í ágúst 2017 að greiða inn á lánið með séreignarlífeyrissparnaði, haldið því áfram til loka júlí 2027. Á þessum tíma getur einstaklingur því greitt fimm milljónir með viðbótariðgjaldi og par gæti greitt tíu milljónir króna.

Par sem kaupir íbúð saman, og annar aðilinn hefur átt íbúð áður en hinn ekki, getur nýtt rétt þess sem er að festa kaup á eign í fyrsta sinn. Þó eru sett þau skilyrði að einstaklingurinn sem er að kaupa íbúð í fyrsta sinn eigi að minnsta kosti 30 prósent í íbúðinni.

Hægt að skipta um húsnæði á tímabilinu

Þó úrræði gildi samfellt í tíu ár eftir að sótt er um er fólki frjálst að skipta um húsnæði á þeim tíma og ráðstafa þá séreignarsparnaði inn á lán sem tekin eru vegna nýs húsnæðis í staðinn. Skilyrði er að kaup á nýrri íbúð fari fram innan tólf mánaða frá sölu þeirrar íbúðar sem veitti réttinn í upphafi.

Ekki skiptir máli hvers konar lán er tekið, hvort það er verðtryggt eða óverðtryggt. Lánið þarf hins vegar að vera vegna kaupa á fyrstu íbúð og að það sé tryggt með veði í þeirri íbúð.

Smelltu hér til þess að lesa greinina í heild

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 
Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu
Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600