Fréttir

Synjun um íbúðakaupalán í Bolungavík: Bankarnir neita

Grein af pressan.is 20.11.2016

Útibússtjórar Landsbanka Íslands og Íslandsbanka á Ísafirði neita báðir að synjað hafi verið um að lána einstaklingi til kaupa á íbúðarhúsnæði í Bolungavík vegna staðsetningar íbúðarinnar. Bæjarfulltrúi í Bolungavík Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir vakti athygli á málinu í aðsendri grein á bb.is. Þar segir hún:

Nýlega hef ég fylgst með dæmi um ungt par með börn sem vill festa kaup á stærra húsnæði en þau eru í fyrir. Parið stenst greiðslumat með glans og eru þau tilbúin að setja sína fjármuni í viðkomandi fasteign. Útibússtjórinn í öðrum bankanum er tilbúinn, fyrir sitt leiti, að veita lán fyrir kaupunum með fyrirvara um að þurfa að fara með málið fyrir æðsta ráð bankans í Reykjavík. Þar kemur þvert nei því þessi fjárfesting er slæm, hún er svo slæm að hún flokkast undir áhættufjárfestingu. Í hinum bankanum mætti parið hroka og dónaskap – þar gengu þau út.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins Vestfirðir mun það hafa verið  Landsbankinn sem synjaði og Íslandsbanki  var hinn bankinn.  Viðkomandi vildi ekki tjá sig um málið við blaðið.

Sævar Ríkharðsson, útibússtjóri Landsbankans á Ísafirði þverneitaði því að synjað hafi verið um lán vegna staðsetningar íbúðar á norðanverðum Vestfjörðum en vildi ekki ræða það mál sem var tilefni skrifa bæjarfulltrúans. Sagði Sævar að bankinn hefði  oftsinnis lánað til kaupa á íbúðarhúsnæði á svæðinu og hefði tekið veð í viðkomandi fasteignum. Miðað væri við fasteignamat og markaðsverð og væri lánað allt að 85% af kaupverði og skipti staðsetning eignarinnar ekki máli.

Hallgrímur Magnús Sigurjónsson útibússtjóri Íslandsbanka á Ísafirði tók í sama streng. Ekki hefði verið um synjun á lánveitingu vegna staðsetningar eignar að ræða. Hann sagði  að Íslandsbanki hefði lánað  rúmlega 2 milljarða króna til íbúðakaupa á Vestfjörðum og að staðsetning eigna væri ekki hluti af áhættustýringu bankans við húsnæðislánveitingar. Almenna reglan væri að lánað væri allt að 80% af kaupverði og við fyrstu kaup gæti lánið numið 90% af kaupverði.

Smelltu hér til þess að lesa greinina í heild

Greinin birtist fyrst í Vestfjörðum. Smelltu hér til að lesa blaðið.

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 
Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu
Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600