Fréttir

Enn hálfsmánaðarbið eftir þinglýsingu

Grein ruv.is frá 21.09.2016:

Biðtími eftir þinglýsingu á kaupsamningum fasteigna og öðrum skjölum hjá sýslumanninum í Reykjavík er enn um hálfur mánuður. Stórir bunkar af skjölum bíða þinglýsingar, eins og sést á þessari mynd sem tekin var í dag. Mannekla hamlar því að hægt sé að hreinsa upp staflann, samkvæmt upplýsingum frá sýslumanni. Sýslumaður vonast til að afgreiðslutími styttist sem fyrst.

Um 300-400 skjöl berast sýslumannsembættinu á dag. Lögfræðingar í um fjórum og hálfu starfi sjá um að þinglýsa, og er áætlað að hver lögfræðingur geti farið yfir 60 skjöl á dag að meðaltali, ef engin önnur verkefni falla til.

Frá því í júlí hefur biðtíminn verið ýmist 14 eða 15 dagar. Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanni fækkaði samningum í bið nokkuð síðla sumars en hefur fjölgað aftur síðustu daga, bæði vegna þess að fleiri skjöl berast og að lögfræðingar og annað starfsfólk hefur þurft að sinna öðrum verkefnum.

Á vef sýslumanns kemur fram að þeir sem komu með skjöl í þinglýsingu í dag megi vitja þeirra fimmtudaginn 6. október, eftir 15 daga. Óvíst sé þó hvort búið verði að fara yfir skjölin þá. Embættið býður hins vegar fólki, sem vitjar skjals sem ekki er búið að þinglýsa eftir að fresturinn rennur út, að þinglýsa því meðan viðskiptavinurinn bíður.

Þórólfur Halldórsson sýslumaður segir að verið sé að vinna að því að straumlínulaga ferlið. Hann kveðst bjartsýnn á að það leiði til þess að afgreiðslutími styttist að einhverju marki. Markmiðið sé að þinglýsingar taki að jafnaði ekki lengri tíma en þrjá eða fjóra daga. Þórólfur segist binda ákveðnar vonir við að því markmiði verði náð sem fyrst.

Smellið hér til að lesa greinina í heild. 

 

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 
Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu
Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600