Fréttir

Mikil bið í þinglýsingu

Frétt ruv.is frá 11.08.2016:

Rúmlega þriggja vikna bið er eftir þinglýsingum hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Formaður Félags fasteignasala segir þetta kalla á mikil fjárútlát hjá íbúðakaupendum. Embættið nái ekki að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Sýslumaður segir ýmsar ástæður fyrir töfinni, mikið safnaðist upp í verkfallinu í fyrra, skjölum hafi fjölgað mikið og fjárveitingar leyfi ekki að ráðið sé í sumarafleysingar. 

Mikill fjöldi skjala hefur safnast upp hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og töluverðar tafir verið á þinglýsingum alveg frá verkfalli félagsmanna BHM í fyrra. Kaupsamningum og lánaskjölum var ekki þinglýst meðan á verkfallinu stóð. 

Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, segir að embættið hafi lent í ákveðnum hremmingum. „Það byrjaði með verkfallinu í fyrra. BHM notaði lögfræðinga hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu sem sitt vopn og það var erfitt hjá embættinu að draga þennan vagn því hvergi annars staðar voru lögfræðingar í verkfalli. Þar byrja vandræðin. Þetta þýddi að við fórum dálítið fram úr fjárhagsáætlun. Síðan gerist það að það er töluvert mikil fjölgun skjala. Milli áranna 2014 og 2015 hefur fjölgað um 10%. Fjölgunin hefur verið hátt í 30% miðað við fyrstu sex mánuði ársins. Fjárveitingar leyfa ekki að það sé ráðið í sumarafleysingar. Það hefur haft það í för með sér að það hefur lengst þessi tími að þinglýsa á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Þórólfur. 

Félag fasteignasala hefur fundað, bæði með sýslumanni og fulltrúum innanríkisráðuneytisins. Sýslumanni vanti fjárheimildir og ráðuneytinu sé kunnugt um ástandið en ekkert bóli á aðgerðum. „Staðan er slæm. Það að þurfa að bíða í allt að þrjár vikur eftir skjölum veldur ýmiskonar vandamálum. Bæði er þetta hugsanlega fjárhagslegt, fólk lendir í að geta ekki greitt greiðslur á réttum tíma, þetta tefur hugsanlega afhendingar og er auðvitað bara ekki boðlegt þjónustustig,“ segir Kjartan Hallgeirsson, formaður Félags fasteignasala. 

Kjartan segir að embættið geti ekki sinnt sínu lögbundna hlutverki. „Samkvæmt bókstafnum þá geta menn tekið sér allt að tvær vikur til þess að afgreiða skjöl. En það hefur aldrei verið þannig. Ég held að það vilji enginn taka sér tvær vikur í að þinglýsa skjölum en staðan í dag er sú að það er ekki verið að ná þessum tveimur vikur heldur, embættið er komið í allt að þrjár vikur þannig að embættið er ekki að ná að uppfylla lagabókstafinn,“ segir Kjartan. 

Smellið hér til að lesa greinina í heild. 

 

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 
Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu
Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600