Fréttir

Í mál við fyrri eigendur

Grein Morgunblaðsins 03.02.2016:

Hjón sem eiga fasteign við Vesturgötu í gamla bænum á Akranesi hafa höfðað einkamál fyrir Héraðsdómi Vesturlands á hendur fyrri eigendum. Málshöfðunin er á þeim forsendum að við kaupin, í nóvember 2014, hafi ekki legið fyrir upplýsingar um ólykt vegna fiskþurrkunarverksmiðjunnar Laugafisks sem stendur skammt frá húsinu. „Þegar við vorum að skoða eignina fundum við enga lykt en daginn eftir að við fengum hana afhenta fundum við hana. Þetta er ólýsanleg lykt; eins konar fiskirotnunarfýla,“ segir Ellen Óttarsdóttir, eigandi fasteignarinnar. Að sögn hennar verður kvaddur til dómsmatsmaður sem muni meta hvort ólyktin hafi áhrif á fasteignaverðið.

Hópur Akurnesinga hefur leitað lögfræðiráðgjafar vegna lyktarmengunar sem gert hefur íbúum í nágrenni Laugafisks lífið leitt. Eins og fram hefur komið hyggst fyrirtækið, sem er í eigu HB Granda, þrefalda fiskþurrkunina að umfangi og byggja til þess tvö ný hús skammt frá þeim stað þar sem fiskþurrkunin er nú, á Breiðarsvæði. Einar Farestveit, lögmaður hjá Lögmönnum Höfðabakka, segir að bréfaskriftir við bæinn hafi að mestu snúist um að fá gögn frá bænum vegna málsins. Engin skaðabótamál hafi verið höfðuð enda málið enn í deiliskipulagsferli.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu á laugardag er samfélagið á Akranesi klofið vegna málsins. Gangi áform um nýjar byggingar Laugafisks eftir muni ný verksmiðja rísa skammt frá þeim stað þar sem hún er núna. Nokkrir viðmælendur Morgunblaðsins hafa lýst áhyggjum af því að lyktin muni þá leggjast yfir miðbæinn og jafnvel Langasand, sem er vinsæll útivistarstaður. Núna verður lyktarinnar einungis vart meðal íbúa í gamla bænum í sunnan- eða suðvestanátt. Ef áform um mengunarvarnir HB Granda ganga eftir mun versta ólyktin vegna verksmiðjunnar þó fara úr 400 metra radíus í 150 metra radíus og ekki ná inn í íbúðarbyggð. 

Smellið hér til að lesa greinina í heild.

 

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 
Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu
Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600