Fréttir

Selja leigufélag með 450 íbúðum

Grein ruv.is 26.01.2016:

Íbúðalánasjóður hyggst selja leigufélagið Klett sem var meðal annars sett á fót til að efla langtímaleigu á íbúðamarkaði. Stefnt er að helmingsfækkun fasteigna hjá sjóðnum.

Íbúðalánasjóður hefur auglýst leigufélagið Klett til sölu með þeim 450 íbúðum sem því tilheyra. Þetta bætist við um 500 íbúðir sem sjóðurinn auglýsti til sölu fyrir áramót. Hermann Jónasson, forstjóri sjóðsins, segir að þetta sé gert til að styrkja fjárhagslega stöðu hans. „Félagið var stofnað samkvæmt sérstakri lagaheimild. Þar kemur skýrt fram að sjóðnum var einungis heimilt að eiga Klett í skamman tíma. Nú er markaður. Félagið er vel rekið. Þarna eru um 450 íbúðir til leigu víðsvegar um landið. Við teljum að með því að selja Klett núna byggjum við undir eflingu leigumarkaðar á Íslandi.“

Guðbjartur Hannesson, þáverandi velferðarráðherra, sagði við stofnun Kletts að tilgangurinn væri meðal annars sá að efla langtímaleigumarkað. Hermann telur söluna nú ýta undir þá þróun frekar en að hamla henni. „Þróun síðustu ára sýnir okkur það að það hafa verið sett á laggirnar nokkur félög. Þau eru að vaxa og dafna og stækka. Leigufélagið Klettur er í rauninni bara eitt félag í þá flóru.“

Gangi áformin eftir fækkar fasteignum Íbúðalánasjóðs um rúmlega helming. „Þetta er mikið magn af fasteignum sem við erum að selja. Gangi áform okkar eftir erum við að selja 900 eignir, annars vegar í pökkunum sem auglýstir voru í desember og núna með leigufélaginu Kletti. Ef þetta gengur eftir má gera ráð fyrir að eignasafnið verði 800 fasteignir um mitt ár 2016,“ segir Hermann.

Smellið hér til þess að lesa fréttina í heild. 

 

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 
Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu
Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600