Fréttir

Lánamál fasteignamarkaðsins í desember

Eftirfarandi pistill er gefinn út af www.lanareiknir.is, höfundur er Þröstur Sveinbjörnsson.

Almennt eru greiningaraðilar að spá frekari lækkun stýrivaxta 10. desember nk. Hljóðar spá þeirra upp á lækkun stýrivaxta upp á 0,25-0,5%. Rök greiningaraðilanna eru einkum þau að nýlegar hagvaxtartölur voru undir spám Seðlabankans, þar sem einkaneyslan var minni en búist var við.
          Lækki vextir enn frekar, myndi það hafa jákvæð áhrif á greiðslubyrði nýrra lána og eldri lána með breytilega vexti. Þannig gæti greiðslubyrði nýs óverðtryggðs jafngreiðsluláns með breytilegavexti, lækkað um 17.000 kr. á mánuði m.v. að höfuðstóll lánsins sé um 25,5 milljónir kr. og að lánið  sé til 40 ára. Frekari vaxtalækkanir ásamt stöðugum verðbólguhorfum mun hafa jákvæð áhrif á markaðinn á komandi mánuðum að mati lanareiknir.is. 

Er vaxtalækkun Seðlabankans að skila sér að fullu í lækkun vaxta á nýjum lánum?Landsbankinn var eini bankinn sem lækkaði fasta vexti til 3 og 5 ára eftir að Seðlabankinn lækkaði vexti sína, eins og sjá má á töflunum hér fyrir neðan. Allir bankarnir að MP banka undanskyldum lækkuðu vexti á lánum með breytilega vexti.
          Fari svo að Seðlabankinn lækki áfram vexti, þá vaknar upp sú spurning hvort Landsbankinn muni lækka vexti sína enn frekar og hvort hinir bankarnir muni fylgja honum eftir, eða hvort hann muni því áfram bjóða upp á bestu kjörin?  

Frá ársbyrjun hefur þróunin verið sú að æ fleiri kjósa verðtryggð lán þegar verið er að fjárfesta í nýrri fasteign, eftir að óverðtryggð lán höfðu haft vinninginn frá 2012. Skýringin á þessari breytingu kann að vera sú að erfiðara er að standast greiðslumat þegar valin eru óverðtryggð lán, þar sem greiðslubyrði slíkra lána er hærri í upphafi lánstímans en verðtryggðra.
          Ef vextir verða lækkaðir enn frekar, er mögulegt að vaxtalækkunin nái jafnframt til verðtryggðra lána. Því gæti þróunin orðið sú að meirihluti nýrra lána yrði áfram verðtryggður, sem ætti að hjálpa nýjum aðilum að komast inn á markaðinn, sérstaklega í ljósi þeirra hækkana sem hafa orðið á markaðnum undanfarin tvö ár með tilheyrandi þörf á hærra eiginfé við fyrstu kaup. 

 

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 

Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu

Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600

 

Sjáðu hvað ánægðir viðskiptavinir hafa um okkur að segja