Fréttir

Kaupendur fyrstu íbúðar á fertugsaldri

Hækkandi íbúðaverð hefur haft þær afleiðingar að kaupendur fyrstu íbúðar verða sífellt eldri. Leigumarkaður er sprunginn og fólk býr lengur í foreldrahúsum en áður tíðkaðist.

Þetta er mat Finns Boga Hannessonar, verkefnisstjóra hjá Íslandsbanka. Finnur segir hækkandi íbúðaverð ungu fólki erfitt. „Það er orðið erfiðara að safna fyrir útborgun í fyrstu íbúð,“ segir Finnur og bætir við að ekki sé lengur boðið upp á lánsveð.

Íslandsbanki lét vinna skýrslu um þróun á fasteignamarkaði og var hún borin saman við þróunina á Bretlandi.

„Magnús Árni Skúlason, sem vann skýrsluna, benti á að bresk könnun á vegum Post Office Mortgages hefði varpað ljósi á þá staðreynd að meðalaldur Breta sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign er 35 ár, en var 28 ár fyrir áratug síðan. Og fyrir fimm árum var meðaldurinn þrjátíu ára. Þetta er fljótt að breytast og hækka,“ segir Finnur.

„Þetta er örugglega mjög sambærilegt hjá okkur en kannski ekki jafn hár aldur,“ útskýrir Finnur.

Í hverjum árgangi á aldursbilinu 25 til 35 ára eru að meðaltali 4.500 manns. Þannig eru 4.700 einstaklingar 30 ára í dag.

„Þessir stóru árgangar eru að hafa töluverð áhrif á fasteignamarkaðinn því einhvers staðar verður fólk að búa,“ segir Finnur.

„Og það er það sem er kannski dálítið að halda verðinu svona háu, það er þessi aldurssamsetning þjóðarinnar.“

Að sögn Finns er leigumarkaðurinn sprunginn og fólk býr mun lengur í foreldrahúsum en áður var.

„Það eru ekki allir sem hafa efni á því að búa í leiguhúsnæði. Enda kannski margir sem búa lengur í foreldrahúsum í því skyni að safna sér fyrir fyrstu eigninni.“

„Það tekur tíma að kaupa sér fasteign,“ segir Finnur að lokum.  Lesa meira ...

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 

Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu

Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600.