Fréttir

Íbúðaverð að hækka hraðar en byggingarkostnaður

Umtalsvert hefur hægt á hækkunartakti byggingarkostnaðar undanfarna mánuði. Tólf mánaða hækkun byggingarkostnaðar mælist nú 5,0% en var komin upp í 11,4% í lok síðasta árs en sú hækkun var talsvert lituð af gengisþróun krónunnar og launahækkunum. Undanfarið ár hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 5,3%, og er fasteignaverð enn að hækka hraðar en byggingarkostnaður. Ætti það að öllu jöfnu að verða til þess að arðsemi í byggingariðnaði muni aukast á nýjan leik og nýbyggingum íbúða fjölga, en byggingariðnaðurinn hefur verið í miklum dvala allt frá hruni. Þegar virðist einhver hreyfing vera komin á þennan markað á nýjan leik en á fyrsta ársfjórðungi þessa árs jukust fjárfestingar í íbúðarhúsnæði um 7% frá sama ársfjórðungi fyrra árs en mikill samdráttur hefur verið í íbúðarfjárfestingu undanfarin ár og er hún enn í algjöru lágmarki miðað við það sem áður var. Á síðasta ári jókst fjárfesting í íbúðarhúsnæði um 8,6% eftir að hafa dregist saman um 17% árið 2010, 56% árið 2009 og 22% árið 2008. Á síðasta ári nam fjárfesting í íbúðarhúsnæði 1,5% af vergri landsframleiðslu en  á tímabilinu 1998-2008 var þetta hlutfall að meðaltali 5,3%. Á síðasta ári var byrjað á 68 nýbyggingum á höfuðborgarsvæðinu en til samanburðar var byrjað á 419 íbúðum árið 2007. Í nýrri þjóðhagsspá okkar gerum við ráð fyrir umtalsverðum vexti íbúðarfjárfestingar á næstu árum eða á bilinu 17-20% ár hvert út árið 2014.  Heimild...

 

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 

Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu

Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600.