Fréttir

Í fínu lagi á Íslandi en glæpur í Flórída

Pétur Sigurðsson skrifar:

Ástæðan fyrir því að ég settist niður til þess að rita þessa grein er frétt sem ég sá í íslensku dagblaði, þar sem blaðamaður ræddi við starfsmann (ekki löggiltan) á leigumiðlun. Þau voru að fjalla um leigumarkaðinn og tjáði starfsmaðurinn sig frjálslega um leigusalana og þeirra hagsmuni með niðrandi athugasemdum. Einnig hef ég heyrt að fasteignasölur geti ráðið til sín sölumenn án nokkurra réttinda og leyft þeim að selja og taka í sölu eignir.

Það er fróðleg lesning að bera saman lög um fasteignasala í Flórída og á Íslandi, og bera síðan saman framkvæmdina á þessum tveimur stöðum. Fyrsta grein laganna í Flórída hljómar svona í lauslegri þýðingu höfundar: Tilgangur – Löggjafinn telur það nauðsynlegt í þágu almanna hagsmuna og velferðar að setja reglur um fasteignamiðlara, sölumenn og skóla í fylkinu. Íslensku lögin byrja á: Þeim einum er heimilt að hafa milligöngu um kaup, sölu eða skipti á fasteignum eða skráningarskyldum skipum fyrir aðra sem hafa til þess löggildingu.
Eins og sést á upphafsgrein beggja laganna þá virðist tilgangurinn ekki sá sami, í Flórída er gegnumgangandi í lögunum að vernda almenning en á Íslandi að stjórna fasteignasalanum. Það skrítna við íslensku lögin er að það vantar í þau kaflann um sölumenn (aðstoðar) og annað aðstoðarfólk.

Mesti munurinn á Íslandi og Flórída er að enginn má taka við umboðslaunum eða semja um þau, fyrir fasteignasölu án þess að hafa til þess tilskilin réttindi. Réttindin í Flórída eru tvenns konar, annars vegar sölumaður fasteigna sem verður að vinna fyrir miðlara. Síðan eru það fasteignamiðlara réttindin sem veita réttindi til þess að eiga og/eða reka fasteignasölur. Einungis réttindafólk má tjá sig um kosti og galla eigna og skrifa samninga. Öll umboðslaun verða að vera greidd fasteignasölunni og má fasteignasalan einungis greiða réttindafólki umboðslaun.

Lítum nú á hvað réttindalausir aðstoðarmenn mega gera í Flórída, þeir mega svara í símann, þeir mega setja upp viðtöl við fasteignasalana og ef spurt er um eign þá mega þeir lesa upp það sem stendur á blaði sem fasteignasalinn hefur skrifað og afhent þeim. Aðstoðarmenn mega líka færa bókhald, sjá um skjalastjórn, koma auglýsingum í blöðin, uppfæra heimasíðu og aðra pappírsvinnu. Aðstoðarmenn mega ekki þiggja prósentur eða umboðslaun, þeir verða að vera launafólk á mánaðar- eða tímakaupi.

Lögin hérna kveða á um hvaða skyldur við höfum og að við verðum að láta kúnnann vita hvar hann stendur í samskiptum við fasteignasalann. Í fyrsta lagi þarf fasteignasalinn að vera heiðarlegur og sanngjarn. Í öðru lagi þarf fasteignasalinn að gera grein fyrir öllum fjármunum. Í þriðja lagi þarf fasteignasalinn að nota alla sína þekkingu, hæfileika og kostgæfni varðandi söluna. Í fjórða lagi þurfum við að láta kaupanda vita allt sem við vitum um eignina og verðmæti hennar. Í fimmta lagi verðum við að koma öllum tilboðum tímanlega til allra aðila, nema að við höfum skriflegar ráðleggingar um annað frá umboðsaðila okkar. Í sjötta lagi þá höfum við takmarkaðan trúnað við alla aðila, það er við megum ekki segja frá einhverju sem getur skaðað samningstöðu aðila.

Síðan en ekki síst þá getur okkar kúnni gefið okkur skrifleg fyrirmæli um sínar séróskir eða sérþarfir. Þessar reglur miða við miðlara, en kúnninn getur ráðið okkur sem sinn einka fasteignasala og þá verður trúnaðurinn algjör við kúnnann. Ef við vinnum sem dæmi sem einkafasteignasali fyrir kúnna þá greiðir kúnninn fyrir okkar vinnu sama hvort um er að ræða kaup eða sölu eigna, en við verðum að gera öllum sem við skiptum við grein fyrir sambandi við okkar kúnna. Flestir kjósa að nota sama kerfi og er á Íslandi eða miðlara samskipti þar sem þau eru léttari, ódýrari og ná yfirleitt sama árangri.

En lítum nú aftur á Ísland, þar sem málpípur fasteignasala og leigumiðlara eru réttindalausar og tjá sig frjálslega um kúnna fasteignasalans. Þar sem fasteignir eru auglýstar til sölu án þess að sé hægt að sjá hvort það sé fasteignasali eða sölumaður fasteigna sem er að auglýsa. Neytandinn verður að geta séð fyrirfram við hvern hann er að eiga og hvort þetta er löglegur fasteignasali eða einhver sem vill verða fasteignasali en nennir ekki eða getur ekki náð sér í réttindi. Þegar ég auglýsi fasteign til sölu verður að koma fram í auglýsingunni að ég sé með réttindi og að ég vinni fyrir löggilta fasteignasölu. Maður veltir því fyrir sér hvort löggjafinn hafi sofið á verðinum þegar ástandið er skoðað á Íslandi?  Heimild ...

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 

Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu

Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600.