Fréttir

Íslandsbanki spáir 0,4% hækkun neysluverðs í október

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,4% í október frá mánuðinum á undan. Ef spá okkar gengur eftir minnkar 12 mánaða verðbólga úr 5,7% í 5,4%, en verðbólga hefur ekki hjaðnað milli mánaða frá janúarmánuði þessa árs. Hagstofan birtir VNV næst kl.9. þann 27. október næstkomandi.

Eftir talsverða hækkun verðlags síðustu mánuði vegna veikingar krónu á fyrri helmingi ársins, ríflegrar hækkunar launa á vordögum og aukins lífs á íbúðamarkaði virðist nú vera að draga úr hækkunartaktinum. Styrking krónunnar um 2,5% frá miðju ári og veruleg lækkun hrávöruverðs kemur nú fram í litlum innfluttum kostnaðarþrýstingi, áhrif launahækkunar í júní eru að fjara út og íbúðaverð hækkar hægar en raunin var framan af ári. Slakinn í hagkerfinu takmarkar auk þess svigrúm seljanda vöru og þjónustu til álagningar.

Við gerum ráð fyrir að húsnæðisliður vísitölunnar verði rótin að 0,1% hækkun hennar nú. Fasteignaverð er á uppleið og þá hefur viðhald og viðgerðir húsnæðis hækkað nokkuð í verði. Ferða- og flutningaliður VNV skýrir 0,08% hækkun hennar í október samkvæmt spá okkar. Skrifast það að verulegu leyti á snarpa hækkun flugfargjalda til útlanda eftir fjögurra mánaða samfellda lækkun. Lækkun á eldsneytisverði vegur þar svo nokkuð á móti. Tómstunda- og menningarliður vísitölunnar hefur svipuð áhrif til hækkunar í spá okkar (0,08%) og eru þar ýmsir undirliðir að verki bæði í vörum og þjónustu. Aðrir liðir hækka minna, og til að mynda gerum við aðeins ráð fyrir óverulegri hækkun á matvöru, sem og þjónustu hótela og veitingastaða.

Hæg hjöðnun verðbólgu framundan
Við spáum í heild 1,0% hækkun VNV á síðasta fjórðungi ársins. Verðbólgan verður samkvæmt því að svipuðum slóðum út árið, og gerum við ráð fyrir 5,6% verðbólgu í árslok. Verðbólga hjaðnar í kjölfarið hægt og bítandi og gerum við ráð fyrir 3,6% verðbólgu í lok næsta árs. Það er þó háð því að gengi krónu verði áfram svipað og nú, en það er ein af forsendum spár okkar. Þá gerum við ráð fyrir endurskoðun kjarasamninga í febrúar næstkomandi til öllu meiri hækkunar nafnlauna en þau 3,5% sem samið var um í maí síðastliðnum. Loks teljum við að húsnæðisverð muni halda áfram að hækka hægt og sígandi. Spá okkar gerir svo ráð fyrir að verðbólga verði í kring um 3% fram eftir árinu 2013 og þannig í grennd við verðbólgumarkmið Seðlabankans.  Heimild...
Verðbólguspá fyrir október

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 

Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu

Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600.