Fréttir

Félag fasteignasala vill rannsókn á ummælum um mútur

Fjölmörg kærumál vegna 110 prósenta leiðarinnar liggja nú fyrir og margir eru ósáttir við meðferð sinna mála í þeim efnum. Félag Fasteignasala vill að Íbúðalánasjóður rannsaki ítarlega það sem fram kemur í DV í dag. 

Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, segir það grafalvarlegt mál ef satt reynist að fasteignasalar hafi þegið greiðslur fyrir að verðmeta eignir fólks í tengslum við 110 prósenta leiðina svokölluðu. Félag fasteignasala hefur óskað eftir ítarlegri skoðun málsins með bréfi til framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs.

Í DV í dag er rætt við Kristjönu Sveinsdóttur sem hefur kært framkvæmd Íbúðalánasjóðs á 110 prósenta leiðinni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Þar hefur Kristjana eftir fasteignasala sem sendur var á vegum Íbúðalánasjóðs til að verðmeta eign hennar vegna úrræðisins að dæmi væru um að góð sambönd í fasteignageiranum og jafnvel mútugreiðslur liðkuðu fyrir lægra verðmati og þar með meiri afskriftum í 110 prósenta leiðinni.

Greinin í DV í dag hefur vakið talsverða athygli og hefur Félag fasteignasala nú óskað eftir skoðun á málinu.

„Þarna er um svo alvarlegar ásakanir að ræða gagnvart fasteignasölum er snúa að hegningarlögum, lögum um sölu fasteigna og siðareglum fasteignasala að Félag fasteignasala krefst þess að aðhafst verði frekar í þessu máli,“ segir í bréfi félagsins til framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs. Félag fasteignasala telur mikilvægt að Íbúðalánsjóður komist að því hvaða fasteignasali verðmat umrædda íbúð til að hann geti upplýst hvort hann viti um slík tilvik þar sem fasteignasalar taki við mútugreiðslum við störf sín, og það verði þá rannsakað ítarlega.

Eins og fram hefur komið hafa Hagsmunasamtök heimilanna krafið efnahags- og viðskiptaráðherra um opinbera athugun á framkvæmda fjármálafyrirtækja á 110 prósenta leiðinni þar sem dæmi séu um að lántakendum hafi verið mismunað. Dæmi séu um misháar lánaleiðréttingar, allt eftir lánveitanda, hvað sambærilegar eignir varðar, jafnvel sams konar íbúðir í sama húsi, keyptar um svipað leyti og nánast á sama verði.  Lesa meira ...

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 

Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu

Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600.