Fréttir

Ríkið komi inn á fasteignamarkaðinn

„Fasteignabólan fór í gang þegar verkamannabústaðirnir voru lagðir niður. Á árabilinu frá 1988 til 1999 komu að jafnaði 350 íbúðir á markaðinn frá verkamannabústöðunum. Þær voru settar á markað á kostnaðarverði og leiddu til stöðugleika á markaðnum,“ segir Þorleifur Gunnlaugsson, varaborgarfulltrúi VG í Reykjavík, og hvetur til aukinnar þátttöku ríkisins á fasteignamarkaðnum í gegnum félagslega kerfið.

Þorleifur segir vaxandi þrýsting á flokksforystuna í VG að grípa til aðgerða til að rétta hlut tekjulágra hópa á fasteignamarkaðnum. Hann rifjar upp orsakir fasteignabólunnar.

Innkoma bankanna ýtti undir bóluna

„Fasteignalán upp að 90% af andvirði eignar ýttu undir bóluna sem og innkoma banka á markaðinn. Afleiðingarnar eru öllum kunnar.

Mér finnst að ríkið, sveitarfélög, verkalýðsfélög og lífeyrissjóðir eigi að taka ríkari þátt í fasteignamarkaðnum. Þá horfi ég til húsnæðissamvinnufélaga sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni heldur með hagsmuni almennings í huga.

Það eru til húsnæðissamvinnufélög sem þarf að styrkja og byggja upp. Í Svíþjóð eru til að mynda sveitarfélög með um þriðjung markaðarins, að mig minnir. Verkalýðsfélög og húsnæðissamvinnufélög eiga sinn hluta af markaðnum. Þannig að meirihluti fasteigna á sænska markaðnum er ekki rekinn í gróðaskyni.“

Þorleifur segir vaxandi þrýsting á flokksforystuna í VG að efna samþykkta ályktun um félagslegar aðgerðir í húsnæðismálum frá landsfundinum 2009.

„Við lögðum fram ályktun í þessa veru á landsfundi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs árið 2009. Síðan hefur verið mikið sagt en lítið gert.“

Ófremdarástand á leigumarkaði

- Fer þrýstingur á flokksforystuna vaxandi af þessum sökum?

„Já. Það held ég að hljóti að vera. Við búum við ófremdarástand á leigumarkaði. Leigumarkaður er í höndum einkaaðila sem höndla hann ekki á sanngjarnan hátt. Auðvitað verða alltaf einkaaðilar á húsnæðismarkaði. Það sem hins vegar vantar á Íslandi er félagslegur húsnæðismarkaður eins og er annars staðar á Norðurlöndum og víðar,“ segir Þorleifur.  Lesa meira ...

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 

Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu

Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600.