Fréttir

Íbúðaverð lækkar lítillega

Verð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu lækkaði lítillega í júlí síðastliðnum samkvæmt vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sem Þjóðskrá Íslands tekur saman og birti í gær. Þetta er í fyrsta sinn sem lækkun á sér stað síðan í desember á síðasta ári en á fyrstu sex mánuðum ársins hefur íbúðaverð hækkað að meðaltali um 1% á milli mánaða í hverjum mánuði. Eins og áður segir er lækkunin á milli júní og júlí lítilsháttar, eða sem nemur um 0,1% að nafnvirði. Talsverðar sveiflur geta einnig verið í mælingum á milli einstakra mánaða og ber að varast að lesa of mikið í þær. Betra er að skoða þróunina til lengri tíma. Á síðustu tólf mánuðum hefur íbúðaverð hækkað um 5,9% að nafnvirði og um 1,1% að raunvirði m.v. vísitölu neysluverðs án húsnæðis.

Skýrist af lækkun á verði íbúða í fjölbýli

Þessi lækkun á milli mánaða skýrist af lækkunum á verði íbúða í fjölbýli, en þær lækkuðu um 0,5% að nafnvirði nú í júlí frá fyrri mánuði á sama tíma og verð sérbýlis hækkaði um 0,9%. Er þetta í takti við þróunina á síðustu mánuðum og hefur verð sérbýlis hækkað nokkuð meira frá áramótum talið en verð á íbúðum í fjölbýli, eða sem nemur um 5,7% á móti 6,8%. 

Aukin velta og færri makaskiptasamningar
Sú hækkun sem hefur átt sér stað á fasteignamarkaði að undanförnu er í takti við tölur um veltu og fjölda kaupsamninga á fasteignamarkaði sem hefur aukist mjög mikið á síðustu mánuðum. Má hér nefna að á fyrstu sjö mánuðum ársins hafa verið þinglýstir 2.370 kaupsamninga um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu samanborið við 1.378 á sama tíma árið 2010. Þetta jafngildi því að þeim hafi fjölgað um rúm 70% frá sama tímabili í fyrra og yfir 140% frá því fyrir tveimur árum.

Samhliða því að kaupsamningum hefur farið fjölgandi hefur veruleg fækkun, sér í lagi hlutfallslega séð, orðið á makaskiptasamningum sem urðu mjög áberandi í kjölfar bankahrunsins. Slíkir samningar voru orðnir vel yfir þriðjungur allra viðskipta á markaðnum um tíma, og þegar hæst lét frá mars til og með júní árið 2009 voru þeir á bilinu 40%-50% allra samninga á höfuðborgarsvæðinu. Nú í júlí síðastliðnum voru makaskiptasamningar innan við 6% þinglýstra kaupsamninga um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og hefur þetta hlutfall ekki verið lægra síðan í apríl árið 2008. Á fyrstu sjö mánuðum ársins hefur innan við tíundi hver samningur á höfuðborgarsvæðinu verið makaskiptasamningur en á sama tímabili í fyrra var yfir fimmti hver samningur makaskiptasamningur. Eins og við höfum áður fjallað um þá ætti fjölgun kaupsamninga og fækkun makaskiptasamninga að minnka verðsveiflur á íbúðamarkaði og vera meira lýsandi fyrir verðþróunina fasteignamarkaði enda minnka þá áhrif einstakra viðskipta á markaði og þar með flökt í gögnum Þjóðskrár sem tekur makaskiptasamninga út þegar verðþróunin er metin.  Lesa meira ...

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 

Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu

Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600.