Fréttir

Byggja upp ódýrt húsnæði fyrir ungt fólk og tekjulága

Sérstök áhersla er lögð á að byggja upp ódýrt húsnæði fyrir ungt fólk og tekjulága hópa, samkvæmt stefnumótun vinnuhóps um húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar. Markmiðið er að efla leigumarkaðinn í borginni þannig að allir borgarbúar eigi kost á öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði.

Vinnuhópur um húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2020 skilaði af sér tillögum til borgarráðs í byrjun júlí. Tillögurnar eru nú í umsagnarferli en frestur til að skila inn umsögnum rennur út í vikulok.

Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar er formaður starfshópsins. Hún segir brýna þörf á að efla leigumarkaðinn í borginni.

Í skýrslu hópsins er lagt til að félagasamtök og húsnæðissamvinnufélög sem bjóða ungu fólki og tekjulágum upp á leiguíbúðir og búseturéttaríbúðir á viðráðanlegum kjörum, fái forgang á úthlutun lóða, að uppfylltum skilyrðum Reykjavíkurborgar.
Mat starfshópsins er að mest þörf sé á ódýrara húsnæði fyrir þessa hópa og því lagt til að úthlutanir á lóðum í nánustu framtíð taki mið af því.

Þá er hvatt til þess að Reykjavíkurborg hafi forystu í að endurskoða og samræma reglur um sérstakar húsaleigubætur, í samvinnu við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, í því skyni að létta greiðslubyrði til tekjulágs fólks sem jafnframt á í félagslegum vanda. Samkvæmt nýjum reglum verði stuðningur óháður því hver á eða rekur húsnæði, heldur fari hann eftir aðstæðum og greiðslubyrði hvers leigjanda.

Vinnuhópurinn mælist ennfremur til þess að Félagsbústaðir reki áfram húsæði fyrir þá sem ekki geta leigt á almennum markaði, þrátt fyrir sérstakan stuðning. Þá verði kannaður sá möguleiki að Félagsbústaðir sinni félagslegu húsnæði á öllu höfuðborgarsvæðinu

Meðal þeirra sem skila umsögn um tillögurnar eru Neytendasamtökin, Félagsstofnun stúdenta og Öryrkjabandalagið.
Almenningi er einnig frjálst að senda inn umsagnir. Skýrsluna má nálgast á vef Reykjavíkurborgar.

Lesa meira ...

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 

Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu

Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600.