Fréttir

Heildarmat fasteigna á landinu hækkar um 6,8%

Þjóðskrá Íslands birtir landsmönnum í dag fasteignamat fyrir árið 2012. Það miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2011 og er nú í fyrsta sinn birt á vefnum. Fasteignaeigendur geta nálgast matið á upplýsinga- og þjónustuveitunni island.is sem Þjóðskrá rekur.

Þjóðskrá auglýsir rækilega í dagblöðum og fleiri fjölmiðlum næstu daga hvernig fasteignaeigendur geta kynnt sér nýja matið hvar sem þeir eru staddir í veröldinni. Til þess þurfa þeir rafræn skilríki eða veflykil ríkisskattstjóra. Auðvelt er að ná í veflykilinn hafi menn hann ekki tiltækan.

Tilkynning um fasteignamat 2012 verður ekki send út í hefðbundnum bréfpósti en fólk getur haft samband við Þjóðskrá og fengið tilkynninguna senda þannig ef þeir vilja.

Matið endurspegli markaðsverðmæti fasteignar

Lög kveða á um að fasteignamat á hverjum tíma skuli endurspegla markaðsverðmæti (staðgreiðsluverð) fasteignar. Fasteignamat íbúðarhúsnæðis fyrir árið 2010 var hið fyrsta sem unnið var í samræmi við nýju lögin og þetta er því í þriðja sinn sem fasteignir eru metnar á þennan hátt í stað þess að framreikna matið frá ári til árs í samræmi við verðlagsbreytingar.

Mat íbúðarhúsnæðis 2012 byggist á yfir 34.000 kaupsamningum frá júlí 2005 til apríl 2011. Fasteignamarkaðurinn er greinilega að taka við sér á ný eftir hrun. Til marks um það er að um 800 kaupsamningar voru gerðir á fyrsta ársfjórðungi 2009, um 1.000 á fyrsta ársfjórðungi 2010 og um 1.300 á fyrsta ársfjórðungi 2011. Líflegri fasteignamarkaður styrkir grunn fasteignamatsins.

Meginniðurstöður fasteignamats 2012

Heildarmat fasteigna á landinu öllu hækkar um 6,8% og verður tæplega 4.400 milljarðar króna.

Heildarmat íbúðarhúsnæðis á landinu öllu hækkar um 9% og verður tæplega 2.900 milljarðar króna.

Fasteignamat íbúða í sérbýli hækkar meira en íbúða í fjölbýli

 •  

  Sérbýli

  Fjölbý

  Höfuðborgarsvæðið

  10,4%

  7,2%

  Utan höfuðborgarsvæðis

  10,3%

  8%

  Landið allt

  10,4%

  7,3%

Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 6,3%. Mesta hækkun á landinu er á Norðurlandi vestra (11,9%) en minnsta hækkunin er á Austurlandi (2,8%). Hækkun fasteignamats í öðrum landshlutum er sem hér segir: Suðurnes (4,3%), Vesturland (9,6%), Vestfirðir (9,9%), Norðurland eystra (9,4%) og Suðurland (9,9%).

Fasteignamat íbúðarhúsa á jörðum og annars íbúðarhúsnæðis í dreifbýli breytist yfirleitt mun meira en mat á öðrum eignum árið 2012. Það stafar meðal annars af því að aðferðir við mat á þessum eignum voru verulega endurbættar og þar með má segja að matsaðferðir fyrir allt íbúðarhúsnæði á landinu hafi nú verið endurskoðaðar í samræmi við lögin sem tóku gildi 2009. Meðal annars vegna þessa er hlutfallsleg hækkun fasteignamats íbúðarhúsnæðis mun meiri í tilteknum sveitarfélögum í dreifbýli en í öðrum. Dæmi um þetta er Helgafellssveit (72,6%), Ásahreppur (47%), Húnavatnshreppur (28,6%) og Súðavíkurhreppur (21,1%).

Dæmi um staðbundnar breytingar á höfuðborgarsvæðinu

Fasteignaverð íbúða í grónum hverfum Reykjavíkur hækkar að jafnaði umfram meðaltal, mest í vesturbænum vestan Bræðraborgarstígs (14,9%) og í Hlíðum  (9,4%).

Mat fasteigna hækkar minna en sem nemur meðaltali í hverfum þar sem mikið var af hálfbyggðum húsum og óseldum eignum eftir hrunið 2008. Það á til dæmis við um Úlfarsárdal (4,5%) og Kórahverfið í Kópavogi (4,2%). Í Akrahverfi í Garðabæ lækkar fasteignamatið lítillega eða um 0,2%.

125.000 íbúðir á Íslandi

Alls eru skráðar tæplega 125.000 íbúðir á Íslandi. Samanlagt fasteignamat þeirra er um 2.600 milljarðar króna en verður um 2.850 milljarðar króna samkvæmt mati ársins 2012; það hækkar með öðrum orðum um 9%.

Fasteignamat á um 120.000 íbúðum hækkar (96% íbúðarhúsnæðis í landinu), mat á um 4.500 íbúðum lækkar en mat á um 550 íbúðum er óbreytt.

Hvað ræður niðurstöðum fasteignamats?

Niðurstöður fasteignamats ráðast árlega af gangverði á fasteignamarkaði samkvæmt upplýsingum sem fást úr tugum þúsunda þinglýstra kaupsamninga undanfarinna ára. Þá er tekið mið af mörgum ólíkum þáttum varðandi eiginleika og gerð hverrar fasteignar, svo sem stærð, byggingarár, byggingarflokk, byggingarefni og staðsetningu. Upplýsingarnar eru greindar tölfræðilega og settar í reiknilíkön sem notuð eru við að meta eignir landsmanna.  Lesa meira ...

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 

Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu

Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600.