Fréttir

Mikil hækkun íbúðaverðs

Verðvísitala íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,7% á milli apríl og maí síðastliðinn samkvæmt upplýsingum sem Þjóðskrá Íslands birti í lok síðustu viku. Ekki hefur mælst svo mikil hækkun á milli mánaða síðan á árinu 2008 eða fyrir bankahrun og þá miklu niðursveiflu á íbúðamarkaði sem fylgdi í kjölfarið. Hefur verð íbúðarhúsnæðis hækkað verulega það sem af er ári, eða sem nemur um 5,6%. Á sama tíma hefur velta á íbúðamarkaði verið að aukast umtalsvert. Var fjöldi þinglýstra samninga með íbúðarhúsnæði 1.591 á fyrstu fimm mánuðum þessa árs sem er fjölgun upp á ríflega 75% frá sama tímabili í fyrra.

 

Undanfarna mánuði hefur það aðallega verið íbúðarhúsnæði í fjölbýli sem hefur verið að hækka í verði. Annað er upp á teningnum nú á milli apríl og maí en þá hækkaði verð sérbýlis um 4,2% en fjölbýlis um 2,2%. Markaðurinn með sérbýli kann því að vera að taka eitthvað við sér nú sem er nokkuð á eftir markaðinum með fjölbýli. Er það eðlilegt m.v. efnahagsástandið.

Marktækari verðmælingar
Markaðurinn með íbúðarhúsnæði varð það lítill í kjölfar hrunsins að verðmælingar urðu afar óáreiðanlegar. Með auknum viðskiptum nú er verðmælingin að verða marktækari. Einnig hefur dregið verulega úr makaskiptasamningum sem gerir hana enn marktækari en Þjóðskrá Íslands hefur haft þá reglu við mælingar sínar að skilja íbúðaviðskipti þar sem makaskipti eru undan í verðmælingu sinni. Makaskipti fóru upp í að vera 48% af heildafjölda þinglýstra samninga þegar kreppan var hvað dýpst á íbúðamarkaðinum árið 2009. Nú er þetta hlutfall komið niður í 8% sem er eðlilegra hlutfall þó að það sé enn nokkuð hátt m.v. það sem var fyrir bankakreppuna. Má hér nefna að á árinu 2007 voru makaskipti að meðaltali ríflega 2% af heildarviðskiptum.

Leigumarkaðurinn að minnka en samt stór
Leigumarkaðurinn stækkaði mjög eftir að kreppan skall á. Eðlilega völdu þá fleiri að leigja en að kaupa enda ekki hyggilegt að leggja eigið fé sitt undir í íbúðakaupum þegar verðlækkun blasti við og hvað þá með skuldsettum kaupum þegar lánin eru verðtryggð og verðbólga mikil. Nú þegar íbúðaverð er farið að hækka og horfurnar betri hvað verðbólgu varðar er ljóst að fleiri velja nú að gerast kaupendur á íbúðamarkaði að nýju. Þannig hefur þinglýstum leigusamningum með íbúðarhúsnæði verið að fækka undanfarið. Var heildafjöldi þinglýstra leigusamninga um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu 2.472 á fyrstu fimm mánuðum þessa árs sem er fækkun um 3,8% frá sama tíma í fyrra. Leigumarkaðurinn er samt enn stór í sögulegu samhengi og verður svo eflaust áfram í ljósi þess að fjárhagsstaða heimilanna hefur versnað verulega frá því sem var fyrir hrun.

Eykur verðbólguna
Verðþróun íbúðarhúsnæðis setur umtalsvert mark á verðbólguna í landinu. Verðhækkun íbúðarhúsnæðis er þannig ekki eins mikil gjöf og hún virðist í fyrstu fyrir íbúðaeigendur sem skulda verðtryggt en þannig eru jú flestir íbúðaeigendur. Vegur íbúðaverð um 12,4% af vísitölu neysluverðs. Merkilega lítil fylgni hefur samt verið á milli mælinga Hagstofunnar og Þjóðskrár á verðbreytingum íbúðaverðs á milli mánaða. Ólíkum mæliaðferðum er þar eflaust að hluta til að kenna en Hagstofan hefur t.d. haft makaskiptasamninga með í sínum mælingum en Þjóðskráin ekki. Hefur þetta gert það að verkum að mikil óvissa fylgir því að nýta verðmælingu Þjóðskrár til þess að spá fyrir um hversu mikið íbúðaverðið muni breytast í næstu mælingu vísitölu neysluverðs. Til lengri tíma fylgjast mælingar þessara tveggja opinberu stofnanna hins vegar ágætlega vel að. Húsnæðisverðshækkunin nú bendir því til þess að verðbólgan á næstunni verði að nokkru leiti knúin áfram af hækkun íbúðaverðs.   Lesa meira ...

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 

Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu

Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600.