Fréttir

Íbúðamarkaðurinn að taka við sér

 

Umtalsverð aukning hefur verið í fasteignaviðskiptum undanfarið. Í maí síðastliðnum var 399 samningum um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu þinglýst og í sama mánuði í fyrra voru þeir 192. Aukningin á milli ára er 108%. Heildarfjöldi þinglýstra samninga hefur ekki verið meiri í einum mánuði síðan í lok árs 2007. Það sem af er ári hefur 1.591 samningi verið þinglýst sem er 75% aukning frá sama tíma í fyrra.

 

Minna um makaskipti
Athygli vekur að hlutfall makaskiptasamninga af heildarfjölda þinglýstra samninga hefur dregist umtalsvert saman, en makaskipti voru afar umfangsmikill hluti íbúðamarkaðarins í hruninu. Var hlutfall makaskiptasamninga 49% af heildarfjölda samninga í maí 2009, 26% í maí 2010 og 8% nú í maí síðastliðnum. Mun meira er því um að íbúðakaupin séu fjármögnuð með peningum, en húsnæðislánveitingar hafa heldur verið að glæðast að undanförnu. Það var Þjóðskrá Íslands sem birti tölur ofangreindar tölur í gær.

Íbúðaverðið hækkandi
Samhliða vaxandi veltu hefur verð íbúðarhúsnæðis verið að hækka. Í apríl síðastliðnum mældist hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu 2,7% og er það mesta hækkun sem þannig hefur  mælst frá fyrri hluta árs 2008. Í maí í fyrra hafði verðið lækkað um 1,0% yfir tólf mánuði og um10,5% á þessum tíma 2009. Kaupmáttur er nú vaxandi, svartsýnin á undanhaldi, vextir lágir, aðgengi að lánsfjármagni betra og umbætur hafa verið gerðar í skuldavanda heimilanna. Allt þetta hefur nú hvetjandi áhrif á íbúðamarkaðinn.

Hugsanlegt er að heimilin séu að minnka við sig húsnæði til að vinna á skuldavanda sínum og er það að skapa framboð af sérbýli og einnig í leiðinni spurn eftir fjölbýli. Kann þetta að skýra af hverju verðþróunin hefur verið afar ólík á þessum tveim flokkum íbúðarhúsnæðis en verð íbúða í fjölbýli hefur hækkað um 5,4% yfir síðastliðna 12 mánuði á sama tíma og verð sérbýlis hefur lækkað um 6,4%. Önnur skýring kann að vera sú að fjárfestar hafa leitað inn á íbúðamarkaðinn í því dapra úrvali fjárfestingakosta sem er á innlendum fjármálamarkaði. Þeir vilja arðsemi og seljanleika og hafa eflaust helst leitað eftir söluvænum íbúðum í fjölbýli sem auðveldar eru til útleigu og leiguverð á móti verði eignar er hátt.

Reiknum með því að þessi þróun haldi áfram
Við reiknum með því að framhald verði á þessari þróun á íbúðamarkaði á næstunni. Við sjáum því fyrir okkur frekari hækkanir á verði íbúðarhúsnæðis og að veltan glæðist enn frekar. Skuldavandi heimilanna setur skuldsettum kaupum þó skorður og þar með hversu mikil verðhækkunin mun verða. Einnig er hugsanlegt að bóla myndist á þessum markaði, sérstaklega ef gjaldeyrishöftin verða lengi við lýði. Verðlækkun mun þá líklegast fylgja afnámi hafta.

Í kjölfar íbúðamarkaðarins í Skandinavíu
Verð íbúðarhúsnæðis hefur tekið seinna við sér hér eftir hina alþjóðlegu bankakreppu en á öðrum Norðurlöndum. Er það skiljanlegt þar sem kreppan var hvað dýpst hér á landi. Einnig var verðbólan í íbúðamarkaði mest hér í aðdraganda hrunsins. Hækkaði verð íbúðarhúsnæðis þannig um 55% hér á landi frá upphafi árs 2005 til upphafs árs 2008, en á sama tíma hækkaði það um 40% í Danmörk, 34% í Svíþjóð, 33% Noregi og 17% í Finnlandi. Húsnæðisverð byrjaði að taka við sér á fyrri hluta árs 2009 í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi en á seinni hluta árs 2009 í Danmörk sem var þá nær ári fyrr en það byrjaði að taka við sér hér.   Lesa meira ...

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 

Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu

Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600.