Fréttir

Færist líf í markaðinn með haustinu?

Vísbendingar um veltu á íbúðamarkaði benda í sömu átt, en svo virðist sem skriður sé að komast á þennan markað eftir langvarandi dvala síðustu missera. Sumarið er yfirleitt rólegur tími á fasteignamarkaði, en viðskipti hafa þó verið öllu líflegri nú í sumar á íbúðamarkaði en á sama tíma fyrir ári. Þannig voru heldur fleiri kaupsamningar um íbúðarhúsnæði gerðir nú í júní, júlí og ágúst, eða samtals um það bil 750 samningar á landinu öllu sem er aukning um 250 samninga, eða um 50%, frá því á sama tíma fyrir ári síðan. Þetta er mikill viðsnúningur frá því sem var síðasta sumar þegar velta dróst saman um 40% frá sama tímabili fyrra árs. Bendir það til þess að veltan á íbúðamarkaði sé nú að taka við sér á nýjan leik eftir að hafa verið í miklum dvala undanfarin tvö ár. Engu að síður er veltan enn langt frá því sem áður var, en sumarið 2007 voru að meðaltali gerðir 1.000 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði í mánuði hverjum.


Flest bendir nú til þess að lunginn af þeim verðlækkunum sem fram munu koma á íbúðamarkaði í þessari kreppu sé kominn fram. Ekki er þó loku fyrir það skotið að einhverjar lækkanir eigi enn eftir að koma fram áður en skýr viðsnúningur verður enda er íbúðamarkaðurinn enn í afar viðkvæmri stöðu. Eitt af því sem hefur haldið íbúðamarkaðinum í frosti er hin mikla óvissa varðandi fjárhagsstöðu heimilanna sem hefur gert það að verkum að margir hafa verið í vistarböndum í íbúðum sínum. Í kjölfar dóms Hæstaréttar um gengisbundin bílalán og yfirvofandi lagasetningu ríkisstjórnarinnar, sem mun gera það að verkum að dómurinn mun einnig ná yfir húsnæðislán einstaklinga, er hinsvegar ljóst að óvissan er nú á undanhaldi og staðan er að skýrast.

Lesa meira ...

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 

Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu

Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600.