Blogg

18sep

Mismunandi fyrirsagnir fjölmiðla

Fasteignamarkaðurinn hefur hægt og bítandi verið að lagast og í töluverðan tíma hefur verið ánægjulegt hvað fyrirsagnir vefmiðla og dagblaða hafa verið jákvæðar eða hlutlausar.   Húsaskjól varð því hissa í vikunni  þegar fleiri en ein fyrirsögn hjá mismunandi vefmiðlum var áberandi neikvæð.  Fyrst má nefna vikulegar fréttir af fjölda þinglýstra kaupsamninga.  Á www.visir.is birtist þessi fyrirsögn: Aukin fasteignakaup og telja þeir upp að í síðustu viku voru 98 samningnum þinglýst miðað við 72 á sama tíma í fyrra.  Á www.mbl.is birtist hins vegar þessi fyrirsögn: Fasteignasala undir meðaltali, þeir bera saman tölur síðustu 12 vikna þar sem meðaltalið var 98 samningar og telja því réttilega að 98 sé undir meðaltali, en það má kannski deila um það að 2 samningar séu það mikil fækkun að það réttlæti að koma með svona neikvæða fyrirsögn.  Hins vegar verðskuldar þetta að skoða tölurnar nánar.   Á vef Fasteignamats Íslands má sjá að á síðustu 12 vikum voru 6 vikur með færri en 98 samninga og ef allt árið er skoðað þá eru ekki nema 10 vikur af 37 sem hafa fleiri samninga en í síðustu viku, það verður því forvitnilegt að sjá hvernig næstu vikur og mánuðir þróist.

Önnur villandi fyrirsögn birtist á www.visir.is sem var Telja innistæðu fyrir helmingslækkun á fasteignaverði.  Fyrsta setningin í greininni er síðan: "Sérfræðingar telja að innistæða sé fyrir allt að 50 prósenta lækkun á fasteignaverði ofan á þá leiðréttingu sem þegar hefur komið fram frá hruni."  Þegar þessi grein er lesin má draga þá ályktun að sérfræðingar telji að fasteignaverð þurfi að lækka um 50% ofan á þá 30% lækkun sem þegar hefur átt sér stað sem þýðir einfaldlega að 20 milljón króna eign þarf að lækka niður í 10 milljónir.  Þá vaknar sú spurning hvað á að gera við lánin sem hvíla á henni?  Hins vegar þegar öll greinin er lesin kemur í ljós að það er verið að fjalla fyrirlestur á vegum www.vib.is um kjöraðstæður fyrir fagfjárfesta þar sem ávöxtunarkrafa til fasteigna sé of lág í dag.  Hins vegar má spyrja sig hvort að það sé ekki eðlilegra að ríki og fjármálastofnanir taki höndum saman til að búa til eðlilegar aðstæður fyrir fagfjárfesta, t.d. með lágum vöxtum fyrir leigufélög frekar en að kalla eftir 30%-50% lækkun á fasteignaverði. 

Þetta er ekki í fyrsta og tæplega í síðasta skipti sem vísað er í sérfræðinga sem spá gífurlegum lækkunum á fasteignamarkaði og langar Fasteignasalann að rifja upp blog frá 2010 vegna greinar sem Þór Saari hagfræðingur og alþingismaður birti í ágúst 2010 með fyrirsögnina: Fasteignasala í alkuli.  Þar nefnir hann m.a.  "... en samkvæmt sumum spám er talið að enn sé innistæða fyrir um 25% til 30% lækkun á fasteignaverði."  Það er því áhugavert að skoða hvernig þessi spá hinna svokallaðra sérfræðinga rættist.  Samvæmt vef Fasteignaskrá Íslands þá var vísitala íbúðaverðs í ágúst 2010, 302,8 stig en hafði síðan hækkað upp í 320,8 stig.  Málið er í raun frekar einfalt.  Mjög margir hafa haldið að sér höndum síðan fyrir hrun og beðið eftir besta tímanum til að kaupa fasteign.  Margir geta ekki beðið lengur, ýmsar breytingar hafa átt sér stað í lífi þeirra, fjölskyldan stækkar eða fólk skilur og svo framvegis.  Húsaskjól spáir því að fasteignamarkaðurinn haldi áfram að rétta úr kútnum hægt og rólega og það verður spennandi að sjá hvort að hann hafi rétt fyrir sér.

Smelltu hér til að skrá þig sem kaupanda 

Smelltu hér til að skrá eignina þína á sölu

Sendu okkur póst til að fá nánari upplýsingar eða hringdu í síma: 519-2600.